Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta, þskj. 50, 50. mál

Reykjavík, 21. febrúar 2018

 

BSRB styður eindregið markmið þingsályktunartillögunnar og telur mikilvægt að ráðist verði í þá greiningarvinnu sem mælt er fyrir um í tillögunni. Rétturinn til kjarasamningsgerðar liggur hjá stéttarfélögum en ekki heildarsamtökum og getur bandalagið eingöngu komið að kjarasamningstengdri vinnu að fengnu umboði aðildarfélaganna til þess.

Um 70% félagsmanna aðildarfélaga BSRB eru konur sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Bandalagið hefur lagt áherslu á að það eigi að vera forgangsverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að uppræta launamun kynjanna og grípa þurfi til markvissra aðgerða til að svo megi verða.

Hagstofa Íslands birti í nóvember 2016 upplýsingar fyrir árið 2015 um laun í einstökum störfum fyrir launamenn á almennum og opinberum vinnumarkaði byggða á launarannsókn sinni sem nær til rúmlega 70 þúsund launamanna. Þar kemur fram að heildarlaun voru lægst í störfum við barnagæslu, þar með talin störf ófaglærðra við uppeldi og menntun barna í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum, eða 318 þúsund krónur á mánuði. Þrátt fyrir að starfsmat sé fyrir hendi hjá sveitarfélögunum um þessi störf verður að telja ljóst að bæði sögulegir og menningarlegir þættir hafi verulega neikvæð áhrif á verðmætamatið sem leiða til þess að störf í þágu barna sem einkum er sinnt af konum raðist til lægstu launa samfélagsins. Sömu sjónarmið eiga við um önnur störf sem félagsmenn aðildarfélaga BSRB sinna fyrir ríki og sveitarfélög og því löngu tímabært að verðmætamat starfa verði tekið til heildarendurskoðunar.

Fyrir hönd BSRB

 

Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?