Umsögn um frumvarp um almannatryggingar o.fl.

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um almannatryggingar o.fl. (einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur o.fl.), 857. mál

Reykjavík, 15. september 2016

 

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um um almannatryggingar. Bandalagið átti fulltrúa í nefnd um endurskoðun laga um almannatrygginga sem skipuð var af félags- og húsnæðismálaráðherra í nóvember 2013. Bandalagið studdi megin niðurstöður nefndarinnar sem að mestu leyti hafa verið færðar inn í frumvarpið sem nú er til umsagnar, að undanskildu starfsgetumati.

Því styður bandalagið framgang þeirra tillagna sem frumvarpið tekur til en leggur ríka áherslu á að bætt verði við ákvæðum um starfsgetumat í samræmi við tillögur nefndar um endurskoðun almannatryggingarlaga. Samkvæmt stefnu BSRB sem samþykkt var til þriggja ára í október s.l. telur bandalagið að gera þurfi grundvallarbreytingar á almannatryggingarkerfinu þar sem litið er til starfsgetu einstaklinga en ekki örorku þeirra.

Í niðurstöðum nefndar um endurskoðun almannatrygginga er sérstaklega vakin athygli á því að í óbreyttu kerfi er því ljóst að dæmi geta verið um einstaklinga sem hafi fengið 75% örorkumat en eru hins vegar með fulla starfsgetu þrátt fyrir skerðingu eða sjúkdóm, sjá bls. 10-11. Í tengslum við niðurstöðu nefndarinnar lögðu BSRB ásamt ASÍ, BHM, KÍ og SA fram bókun. Þar segir að lögð sé áhersla á að metin sé starfsgeta einstaklinga í stað vangetu þeirra, aukin réttindi fólks sem býr við orkuskerðingu á bilinu 25-50% með því að taka upp kerfi hlutabóta og tryggja endurhæfingarmöguleika í stað núverandi örorkubótakerfis sem festir fólk oft í fátækragildru og dregur úr hvata til starfsendurhæfingar og atvinnuþátttöku.

Ekki náðist samstaða í nefndinni um endurskoðun almannatrygginga um tillögur til breytinga á barnalífeyri almannatrygginga. Í fyrrnefndri bókun samtaka launafólks og atvinnurekenda segir að brýnt sé að félags- og húsnæðismálaráðherra og Alþingi beiti sér fyrir því að gerðar verði breytingar hið fyrsta á barnalífeyri sem tryggi jafnræði í framfærslustuðningi við tekjulágt barnafólk, óháð því hvort það hefur launatekjur á vinnumarkaði eða lífeyristekjur.


Fyrir hönd BSRB

Helga Jónsdóttir

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?