Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um almannavarnir

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannavarnir nr. 82/2008, (borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila), 697. mál

Reykjavík, 24. mars 2020

BSRB hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannavarnir (borgaraleg skylda starfsmanna opinbera aðila), sem felur í sér heimild til þess að breyta starfsskyldum opinberra starfsmanna tímabundið. BSRB gerir ekki athugasemdir við frumvarpið en telur þó rétt að árétta nokkur atriði sem mikilvægt er að haft verði í huga við framkvæmd laganna, verði frumvarpið að lögum og ákvæðum þeirra beitt.

BSRB leggur ríka áherslu á að um neyðarúrræði sé að ræða, sem komi ekki til nema brýna þörf krefji. Þá telur BSRB mikilvægt að árétta það sem fram kemur í greinargerð að við aðstæður þegar lagaákvæðunum er beitt verði ávallt að líta til aðstæðna starfsmanna hverju sinni, svo sem ef starfsmaður eða annar einstaklingar sem hann ber ábyrgð á, glímir við undirliggjandi sjúkdóm eða annað sem gæti leitt til þess að breytt starfsvið myndi stefna öryggi eða heilbrigði í hættu. Að lokum leggur BSRB áherslu á að jafnræðis og meðalhófs verði gætt við beitingu úrræðisins auk þess sem gott samráð verði haft við starfsmenn áður en ákvarðanir eru teknar.

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?