Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um almannavarnir

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannavarnir,nr. 82/2008 (borgaraleg skylda), 443. mál

Reykjavík, 2. febrúar 2021

BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreint frumvarp þar sem til stendur að framlengja hið tímabundna bráðabirgðaákvæði um borgaralega skyldu opinberra starfsmanna sem samþykkt var á Alþingi hinn 30. mars á síðasta ári.

BSRB skilaði umsögn um frumvarpið á þeim tíma og gerði ekki athugasemdir við efni frumvarpsins í ljósi þess að á fyrri stigum hafði verið tekið tillit til athugasemda bandalagsins um að starfsmenn í ákveðinni stöðu yrðu gerðir undanþegnir skyldunni. Í umsögn sinni lagði bandalagið þó ríka áherslu á að um neyðarúrræði sé að ræða sem skuli ekki beitt nema brýn nauðsyn sé fyrir hendi.

Fljótlega eftir gildistöku laganna fór BSRB að berast mál þar sem starfsmenn höfðu verið færðir úr sínum hefðbundnu störfum og gert að sinna ýmsu viðhaldi á vinnustað sínum, svo sem málningarvinnu eða öðrum slíkum störfum. Á framangreindum vinnustöðum var engin neyð fyrir hendi, heldur verkefnin einfaldlega færri en vanalega vegna lokunar sundlauga eða íþróttamannvirkja. Við þetta hefur BSRB gert athugasemdir, enda felur umrætt bráðabirgðaákvæði eingöngu í sér skilyrta heimild til viðbragða þegar nauðsyn krefst þess að starfsmaður sinni störfum í þágu almannavarna á hættustundu.

BSRB leggur áherslu á að jafnræðis og meðalhófs verði gætt við beitingu úrræðisins og að samráð sé haft við starfsmenn áður en slíkar ákvarðanir eru teknar. Að því sögðu er BSRB ekki mótfallið því að umrætt bráðabirgðaákvæði verði framlengt, í ljósi þess að samfélagið glímir enn við heimsfaraldur kórónuveiru rétt eins og þegar bráðabirgðaákvæðið kom fyrst til.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?