Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa, 664 mál.

Reykjavík, 18. mars 2020

BSRB vill koma á framfæri athugasemdum sínum við ofangreint frumvarp og óskar eftir því að umsögn bandalagsins verði tekin til umfjöllunar hjá velferðarnefnd Alþingis. Frumvarpið felur í sér viðbrögð stjórnvalda við þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú eru uppi vegna heimsfaraldurs kóróna veiru (Sars-CoV-2) sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Gríðarleg óvissa er uppi vegna faraldursins og mikill samdráttur hefur átt sér stað að undanförnu, en fyrirséð er að það ástand haldi áfram tímabundið á meðan faraldurinn geisar hér á landi.

BSRB lýsir því yfir stuðningi við frumvarpið, en gerir þó eftirfarandi athugasemdir:

BSRB telur 650.000 kr. hámarksfjárhæð frumvarpsins of lága. Meðallaun á Íslandi eru 770.000 kr. samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fyrir árið 2018 uppreiknaðar samkvæmt launavísitölu til ársins í ár og telur BSRB mikilvægt að úrræðið nái til einstaklinga á meðaltekjum. BSRB telur því að fjárhæðin eigi að vera 800.000 kr.

BSRB telur samanlagðar greiðslur frá atvinnurekanda og atvinnuleysisbætur eigi ekki að miðast við 80% af meðaltali heildarlauna launamanns, líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir, heldur 100% heildarlauna. Efni frumvarpsins var kynnt samtökum launafólks þann 13. mars sl. og þar var gert ráð fyrir 100% greiðslum upp að tiltekinni hámarksfjárhæð. Þar lýsti bandalagið yfir stuðningi sínum en síðan sú kynning var haldin hefur hlutfallið verið lækkað niður í 80%. Það getur BSRB ekki sætt sig við, enda er stór hluti launafólks í þeirri stöðu að ná ekki endum saman séu tekjur þeirra skertar með þessum hætti.

Að lokum telur BSRB það lágmarks starfshlutfall sem frumvarpið mælir fyrir um svo launamaður geti nýtt sér úrræðið of hátt. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lágmarki 50% starfshlutfalli en BSRB gerir tillögu um að frumvarpið mæli fyrir um að lágmarki 25% starfshlutfall, enda þá tryggt að þetta nauðsynlega úrræði nýtist sem flestum.

Að öðru leyti lýsir BSRB yfir stuðningi sínum við efni frumvarpsins.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?