Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018 (endurgreiðslur), 727. mál

Reykjavík, 24. apríl 2020

BSRB vill koma á framfæri athugasemdum sínum við framangreint frumvarp sem felur í sér að ferðaskrifstofum verði heimilt að endurgreiða ferðamönnum pakkaferðir, sem hafa verið afpantaðar eða verið aflýst og áttu að fara á tímabilinu 15. mars til og með 30. júní 2020, með inneignarnótum. Að mati BSRB er ekki forsvaranlegt að lausafjárvanda ferðaskrifstofa, og annarra fyrirtækja er geta nýtt sér framangreinda heimild, verði velt yfir á einstaklinga og fjölskyldur. Bandalagið hefur þó vissulega samúð með þeirri stöðu sem fyrirtækin standa frammi fyrir.

Þó aðstæður seljenda pakkaferða hafi breyst verulega á undanförnum vikum og mánuðum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þá hafa aðstæður einstaklinga og fjölskyldna einnig breyst. Sá fjöldi sem hefur nú þegar misst atvinnu sína eða þurft að þola skert starfshlutfall er fordæmalaus og margir horfa fram á mikinn tekjumissi á komandi vikum og mánuðum. Þeir einstaklingar eða þær fjölskyldur sem ætluðu sér að ferðast á umræddu tímabili, og eiga að óbreyttu rétt til endurgreiðslu úr hendi ferðaskrifstofu, munu því í mörgum tilfellum vilja ráðstafa þeim fjármunum með öðrum hætti. Það er því ekki sanngjarnt að þeim sé gert að þola það að fá skilyrta inneignarnótu í stað þeirrar endurgreiðslu.

BSRB telur jafnframt óvíst hvort efni frumvarpsins standist ákvæði 72. gr. stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttar og saknar þess að ekki hafi verið metið og rökstutt sérstaklega hvernig efni þess samræmist ákvæðum stjórnarskrár, sbr. 4. kafli frumvarpsins. Í þessu sambandi má benda á að hér er um að ræða endurgreiðslukröfu í reiðufé, sem einstaklingar eiga rétt til samkvæmt gildandi lögum, sem verið er að umbreyta í skilyrta inneignarnótu.

Með vísan til framangreinds getur BSRB ekki stutt efni frumvarpsins. Bandalagið hvetur því stjórnvöld til þess að finna aðra leið til þess að leysa umræddan vanda.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?