Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (fjármagnstekjuskattur), 374. mál

Reykjavík, 10. desember 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til breytinga á lögum sem miða að því að auka skattaundanþágu frá fjármagnstekjuskatti með hækkun frítekjumarks úr 150.000 kr. í 300.000 kr. og að víkka undanþágurnar svo að þær nái jafnframt til arðs og söluhagnaðar af verð- og hlutabréfum. Þá er lagt til í frumvarpinu að veita skattfrelsi vegna innleysts gengishagnaðar af höfuðstól í erlendum gjaldmiðli ef sýnt er fram á að myndun hans hafi komið til vegna fyrirséðra útgjalda í erlendum gjaldeyri og nýtingin hafi verið í samræmi við það. Í frumvarpinu er einnig lagt til að söluhagnaður á frístundahúsnæði til eigin nota verði undanþeginn skattskyldu hafi húsnæðið verið í eigu seljanda í meira en 5 ár.

Ósjálfbær rekstur ríkissjóðs

BSRB ítrekar varnaðarorð sín um ósjálfbæran rekstur ríkissjóðs vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um skattlækkanir af ýmsum toga á kjörtímabilinu, að frátöldum þeim tímabundnu aðgerðum sem tengjast viðbrögðum við heimsfaraldrinum. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nema ótímabundnar skattalækkanir um 34 mö.kr. árlega og munu tekjur ríkissjóðs lækka um sem nemur 1,5 til 1,8 mö.kr. verði frumvarp þetta að lögum óbreytt. Á sama tíma sæta mikilvægir málaflokkar aðhaldsmarkmiðum þrátt fyrir langvarandi vanfjármögnun og umframálag vegna faraldursins.

BSRB kallar eftir réttlátri skiptingu byrðanna

BSRB ítrekar kröfu sína um fjármagnstekjur verði skattlagðar með sama hætti og tekjuskattur. Í skýrslunni, Sanngjörn dreifing skattbyrðar, sem Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson unnu fyrir Eflingu 2019 kemur fram að skattur á fjármagnstekjur er lægri hér á landi en á Norðurlöndum og öðrum samanburðarlöndum. Bent er á að í nýrri skýrslu OECD komi fram að Ísland er meðal þeirra ríkja þar sem tekjuskattur fyrirtækja skilar hvað minnstu til hins opinbera, hvort sem litið er á hlutfall af skatttekjum í heild eða hlutfall af þjóðarframleiðslu. Tekjuhæsta eina prósentið hér á landi er með lægri skattbyrði en aðrir tekjuhópar vegna þess að tekjur þeirra eru að stórum hluta og oft með meirihluta tekna sinna sem fjármagnstekjur, en þær bera lægri skatt en atvinnutekjur og lífeyristekjur. Skattfríðindi eignamesta fólksins skapar því óvenjulega dreifingu skattbyrðar eftir tekjuhópum.

Þær skattalækkanir sem boðaðar eru í frumvarpinu væri fremur hægt að nýta að lækka skatta á tekjulægstu hópana með fjölgun skattþrepa eða til aukins stuðnings í barnabótakerfinu til að lágtekju- og millitekjuhópar sæti minni skerðingum.

BSRB leggst alfarið gegn því að svo veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi fjármagnstekjuskatts verði samþykktar á hraðferð í miðjum heimsfaraldri og alvarlegum efnahagssamdrætti sem hefur leitt til gríðarlegs tekjufalls hjá ríkissjóði og sveitarfélögum. Þær ívilnanir sem felast í frumvarpinu lýsa skilningsleysi á þeim alvarlega vanda sem ríkisvaldið og heimili landsins standa frammi fyrir. BSRB leggur ríka áherslu á að skattkerfið sé nýtt sem jöfnunartæki. Stærsta verkefni fjárveitingarvaldsins nú, að mati bandalagsins, er að tryggja afkomu fólks og fjármögnun mikilvægrar þjónustu sem og að skapa atvinnutækifæri.

BSRB hvetur Alþingi til að hafna frumvarpinu.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?