Umsögn um frumvarp um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar), 972 mál

Reykjavík, 31. ágúst 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar framangreint frumvarp sem felur í sér ýmis viðbrögð stjórnvalda til þess að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á vinnumarkað og efnahagslíf hér á landi. Um er að ræða breytingar á lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví, lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa sem flestar eiga það sameiginlegt að fela í sér tímabundin úrræði vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi á vinnumarkaði.

Breyting á lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020

Hinn 24. mars sl. tóku gildi lög sem tryggja launafólki og sjálfstætt starfandi einstaklingum, sem sæta þurfa sóttkví samkvæmt fyrirmælum yfirvalda, laun fyrir þann tíma. Úrræðið tók upphaflega til tímabilsins frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020 en var framlengt til 30. september með lögum nr. 37/2020. Nú stendur til að framlengja úrræðið til 31. desember 2020.

BSRB skilaði umsögn til velferðarnefndar Alþingis þegar frumvarp til laga nr. 24/2020 var til meðferðar hjá nefndinni. Þar var úrræðinu fagnað, enda mikilvægt verkfæri í baráttunni við áhrif kórónuveirunnar hér á landi. Á þeim tíma var mikil óvissa uppi um réttindi og stöðu launafólks sem sæta þurfti sóttkví, og gat þ.a.l. ekki sinnt sínum störfum á sama tíma. Í umsögn sinni, dags. 18. mars 2020, benti bandalagið hins vegar einnig á að líta þyrfti sérstaklega til foreldra sem var gert ómögulegt að sinna sínum störfum vegna barna sinna sem þurftu að sæta sóttkví.

Í kjarasamningum eru ákvæði um rétt til launaðra fjarvista frá vinnu vegna veikinda barna, en þau ákvæði ná ekki yfir tilvik þar sem barn starfsmanns sætir sóttkví, þar sem barnið telst ekki vera veikt í þeim skilningi. Litið var til athugasemda bandalagsins á síðari stigum og eru nú ákvæði um þennan rétt í lögunum, sbr. a. liður 1. mgr. 5. gr. laganna. Það er fagnaðarefni. Eins og fyrr segir stendur nú til að framlengja úrræðið til áramóta og er því fagnað af hálfu BSRB. Um er að ræða mikilvægt úrræði sem hefur nýst þeim vel sem það þurfa, þó þeir séu heldur færri en upphaflega var gert ráð fyrir. BSRB hvetur þó til þess að gengið verið enn lengra og að afkoma foreldra sem geta ekki sinnt störfum sínum vegna lokunar á leik- eða grunnskólum barna þeirra verði einnig tryggð. Þannig er mikilvægt að þeim verði tryggðar launagreiðslur eins og um sóttkví sé að ræða.

Undanfarið hafa komið upp fjölmörg tilfelli þess að skólum sé lokað vegna smita í hópi starfsfólks og eflaust munu fleiri slík tilfelli koma upp í vetur. Við slíkar aðstæður getur foreldrum verið gert ókleift að sinna störfum sínum og því þyrfti að líta til þess eins og um sóttkví sé að ræða þó börnin sjálf séu ekki í sóttkví að fyrirmælum yfirvalda. Það er von BSRB að litið verði sérstaklega til slíkra tilfella við meðferð frumvarpsins hjá nefndinni.

Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006

Ein af megináherslum BSRB í gegnum heimsfaraldur kórónuveiru hefur verið að tryggja afkomu heimila landsins. Það er gríðarlega mikilvægt í ljósi mikils atvinnuleysis og erfiðra skilyrða í íslensku efnahagslífi. Í þessu sambandi hefur bandalagið hvatt stjórnvöld til þess að hækka fjárhæðir atvinnuleysisbóta þannig að þær fylgi launahækkunum sem hafa orðið á kjarasamningum undanfarin ár, lengja bótatímabil og lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta.

Hinn 1. janúar 2020 hækkuðu grunnatvinnuleysisbætur um 9.790 kr., sem er talsvert lægri fjárhæð en kjarasamningar á bæði almennum og opinberum vinnumarkaði tryggðu launafólki. Þeir samningar voru almennt gerðir á grundvelli samnings sem í daglegu tali hefur verið nefndur Lífskjarasamningurinn og var gerður með aðkomu bæði aðila vinnumarkaðsins og stjórnvalda.

BSRB vill ítreka þá skoðun sína að nauðsynlegt er að hækka atvinnuleysisbætur úr 289.510 kr. á mánuði í 320.720 kr., en það jafngildir hækkun kauptaxta samkvæmt Lífskjarasamningnum á árunum 2019 og 2020. Mikilvæg er að fjárhæðir atvinnuleysistrygginga fylgi launahækkunum til samræmis við kjarasamninga til þess að stuðla að sem minnstum ójöfnuði hér á landi.

BSRB fagnar því þó sérstaklega að nú standi til að lengja rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex, en telur að einnig þurfi að hækka tekjutengdar greiðslur atvinnuleysistrygginga. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru nú að hámarki 456.404 kr. á mánuði og aðeins er greitt sem nemur 70% af fyrri launum. Til samanburðar má benda á að hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs launa er 633.000 kr. á mánuði og laun í uppsagnarfresti nema að hámarki 633.000 kr. á mánuði, sbr. lög nr. 50/2020 um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Atvinnuleysi er fólki almennt erfitt og fjárhagslegt óöryggi sem því veldur mikill streituvaldur.

Með hækkun tekjutengdra atvinnuleysistrygginga og hækkun grunnbóta yrði framfærsla þess stóra hóps sem úrræðið mun ná til að öllu leyti betur tryggð. Fólk yrði betur í stakk búið til að takast á við atvinnuleit, taka ákvarðanir um nám eða aðrar leiðir til að afla sér lífsviðurværis til framtíðar. Hækkunin myndi einnig leiða til aukinnar kaupgetu mörgþúsund einstaklinga og vinna þannig gegn enn frekari samdrætti í efnahagslífinu.

Bandalagið leggur því mikla áherslu á framangreint, á sama tíma og því er fagnað að lengja eigi tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex mánuði.

BSRB á fulltrúa í samhæfingarhópi um atvinnu- og menntaúrræði sem skipaður var af félagsog barnamálaráðherra annars vegar og mennta- og menningarmálaráðherra hins vegar. Bandalagið lýsir yfir stuðningi sínum við tillögur hópsins og telur þær til þess fallnar að stuðla að mýkri lendingu fyrir efnahagslíf vegna heimsfaraldursins.

Það er jákvætt að mati bandalagsins að þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur og eru í virkri atvinnuleit verði gert heimilt að stunda háskólanám sem nemur 12 ECTS einingum, enda hefur það valdið vandræðum í framkvæmd að hafa hámarkið 10 einingar í ljósi þess að flest námskeið á háskólastigi eru metin til 6 ECTS eininga. Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að sérstakt átak stjórnvalda feli í sér heimild atvinnuleitenda til þess að stunda nám í ákveðnum greinum á framhalds- og háskólastigi samhliða atvinnuleysisbótum í eina önn, á grundvelli sérstaks námssamnings við Vinnumálastofnun. Í þessu sambandi er nefnt að úrræðið sé hægt að nýta á vorönn árið 2021, haustönn árið 2021 eða vorönn árið 2022. BSRB leggur til að úrræðið verði lengt í tvær námsannir sem yrði þá hægt að nýta sem heilt skólaár eða á vor- og haustönn 2021, enda stuðlar það að mun meiri fyrirsjáanleika og stöðugleika fyrir þá sem nýta sér úrræðið.

Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 var gert átak í því að opna menntakerfið fyrir atvinnuleitendum, sem byggði á þeirri hugsun að virkni sé jákvæð fyrir einstaklinga og að fólki farnist almennt betur ef það helst í virkni á umbreytingartímum í þeirra lífi. Á þeim tíma áttu ákveðnir hópar framhaldsskólanema rétt til að stunda nám samhliða atvinnuleysisbótum í allt að fjórar annir. Í greiningum sem gerðar voru á átakinu Nám er vinnandi vegur kom í ljós að framfærslu- og fjárhagsáhyggjur höfðu mikil áhrif á brotthvarf nemenda frá námi.[1]

Framangreindar breytingar virðast gerðar með sömu markmið í huga en þó virðist skorta að litið sé til lengri tíma í slíkum úrræðum og að fjárhagslegt öryggi atvinnuleitenda sé tryggt á meðan þeir ganga í gegnum tímabil breytinga og enduruppbyggingar, en framfærsla námslána er t.a.m. töluvert lægri en grunnfjárhæðir atvinnuleysisbóta.

Breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 og lögum um Ábyrgðarsjóð launa nr. 88/2003

Að lokum vill BSRB koma á framfæri athugasemdum sínum um framlengingu á því úrræði sem atvinnurekendur telja hafa nýst hvað best undanfarna mánuði, á meðan faraldurinn hefur geisað hér á landi og haft mikil neikvæð áhrif á efnahagslíf landsins, og hefur í daglegu tali verið nefnt hlutabótaleiðin. BSRB lýsti yfir stuðningi sínum við úrræðið með umsögn dags. 18. mars 2020 en kom þó á framfæri tilteknum athugasemdum um fjárhæðir sem voru teknar til greina að vissu leyti. Úrræðið var upphaflega sett tímabundið til 1. júlí 2020 en var síðar framlengt til 1. september, eða um tvo mánuði. Nú stendur aftur til að framlengja úrræðinu um tvo mánuði, eða til 31. október 2020.

Þegar úrræðið var sett upphaflega var uppi mikil óvissa og því skiljanlegt að stjórnvöld hafi gert úrræðið tímabundið til skamms tíma. Núna hálfu ári síðar er staðan að vissu leyti önnur og flestir sérfræðingar á þeirri skoðun að það muni taka tíma fyrir efnahagslífið að ná jafnvægi á ný. Af þeim sökum telur BSRB að framlengja þurfi úrræðið til lengri tíma en tveggja mánaða. Það myndi fela í sér mun meiri fyrirsjáanleika fyrir atvinnurekendur og veita þeim jafnframt betra verkfæri í sinni baráttu, þegar kemur að því að halda rekstri sínum gangandi og viðhalda starfsfólki sínu og þeirri þekkingu sem það býr yfir. Slíkur fyrirsjáanleiki getur verið lykilatriði fyrir bætt rekstrarumhverfi fyrirtækja á þeim óvissutímum sem nú eru uppi.

BSRB er reiðubúið til þess að fylgja umsögn sinni eftir og mæla fyrir henni á fundi nefndarinnar, verði þess óskað.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

[1] Skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um árangur vinnumarkaðsaðgerða fyrir ungt fólk, lögð fyrir Alþingi á 142. löggjafarþingi árið 2013, bls. 33.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?