Umsögn um frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021, 5. mál

Reykjavík, 30. október 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021 og þakkar fyrir að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum bandalagsins á framfæri. Sumt af því sem fram kemur í umsögninni kemur einnig fram í umsögn bandalagsins um fjárlagafrumvarpið og fjármálaáætlun til fjárlaganefndar.

Hækkun ýmissa gjalda um 2,5%

Í frumvarpinu er lagt til að kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, bifreiðagjald og gjald á áfengi og tóbak hækki um 2,5 prósent þann 1. janúar 2021. Það sama á við um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins. Í greinagerð með frumvarpinu kemur fram að hækkunin miðist við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands en ekki spá Hagstofu Íslands um 3,2 prósent verðbólgu ársins 2020. Í minnisblaði sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk frá fjármála- og efnahagsráðuneyti vegna frumvarpsins þann 26. október sl., og birt er á vef Alþingis, kemur fram að venjan sé að uppfæra krónutölugjöld komandi fjárlagaárs miðað við hagspá Hagstofu Íslands um verðbólgu þess árs sem frumvarpið er lagt fram á en nú sé breytt út af þeirri reglu og miðað við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Enginn frekari rökstuðningur er veittur og enga almenna reglu er að finna í þessu frumvarpi eða fjárlagafrumvarpinu um hvaða viðmið fjármála- og efnhagsráðuneytið notar fyrir verðlagshækkanir á tekjuhlið. Á gjaldahlið nemur verðlagshækkunin 2,7 prósent og miðast sú hækkun við verðbólguspá fyrir árið 2021, því ári sem áætluð innkaup á vöru og þjónustu munu fara fram.

BSRB varar við því að ekki liggi fyrir skýr stefna um hækkun mikilvægra tekjustofna ríkissjóðs. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun tekjuöflun ríkissjóðs vegna ofangreindra gjalda verða um 500 m.kr. lægri en ef miðað væri við raunhækkun verðlags,  samkvæmt minnisblaði ráðuneytisins. Á sama tíma er beitt aðhaldi í rekstri stofnana sem veita mikilvæga þjónustu, ekki síst nú á tímum heimsfaraldursins.

Í greinagerð með fjárlagafrumvarpinu er bent á að tekjulækkun vegna ótímabundinna skattkerfisbreytinga ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu muni nema 34 mö.kr. vegna tekjuársins 2021. Með því að hækka ekki ofannefnd gjöld til samræmis við verðlag er verið að draga enn frekar úr tekjuöflun ríkisins. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa hugfast að áætlaður hallarekstur ríkissjóðs á árinu 2021 mun nema um 8,6 prósent af VLF og halla sem nemur um2,4 prósent af VLF má rekja til undirliggjandi afkomuvanda. BSRB ítrekar andstöðu sína við að tekjulækkun ríkissjóðs sé mætt með niðurskurði í rekstri og tilfærslukerfum.

Frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna

Í frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði í lögum um almannatryggingar um frítekjumark tekjutryggingar örorkulífeyris vegna atvinnutekna verði framlengt svo ákvæðið gildi áfram árið 2021. Frítekjumarkið, sem er 1.315.200 kr. á ári, hefur ekki hækkað frá 1. júlí 2009 og ætti með réttu að vera nánast tvöfalt hærra í dag hefði það fylgt launaþróun. BSRB hvetur stjórnvöld til að flýta endurbótum á lífeyriskerfi örorkulífeyrisþega. Hætta á fátækt og fjárhagsþrengingum er mest meðal örorkulífeyrisþega og flókin skerðingarákvæði kerfisins ýta undir þá hættu.

Tekjur starfsendurhæfingarsjóða

Með frumvarpinu er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæðum þar sem kveðið er á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2021 og lægra hlutfall af stofni iðgjalda til lífeyrissjóða en lögin kveða á um. Þessi bráðabirðgaákvæði hafa verið í gildi frá 2013 og því hefur fjármögnun atvinnutengdrar starfsendurhæfingar aldrei náð þeim styrk sem stefnt var að með gildistöku laga um slíka starfsemi.

Samkvæmt ársskýrslu VIRK fyrir árið 2019 var ávinningur af starfsemi sjóðsins metinn 20,5 ma.kr. á því ári af Talnakönnun. Rekstrarkostnaður sjóðsins það ár var hins vegar 3,4 ma.kr. Umsóknum um þjónustu VIRK fjölgar ár frá ári og mikilvægt er að starfsendurhæfingu sé tryggð sú fjármögnun sem lagt var upp með þegar aðilar vinnumarkaðarins komust að samkomulagi um fyrirkomulag starfsendurhæfingar til að stuðla að því að sem flestir eigi þess kost að vera virkir á vinnumarkaði. BSRB hvetur til þess að Alþingi kanni gaumgæfilega hvort efla þurfi fjármögnun starfsendurhæfingar. Það er eðlilegt í ljósi þeirrar umræðu sem skapast hefur um fjölgun örorkulífeyrisþega. Fjölgunin er mest meðal kvenna, ekki síst kvenna sem starfa í þeim kvennastéttum sem nú mæðir hvað mest á vegna heimsfaraldursins.

Vaxtabætur

Í frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði um tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta í lögum um tekjuskatt verði framlengdar óbreyttar um eitt ár. BSRB vekur athygli á því að verið er að leggja niður vaxtabótakerfið smám saman þar sem skerðingarmörkum og fjárhæðum bótanna er haldið óbreyttum á milli ára. Það veldur því að útgjöld ríkissjóðs lækka um 600 m.kr. á milli ára samkvæmt frumvarpinu. Í greinagerð með frumvarpinu segir að unnið sé að heildarendurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda á ýmsum sviðum. BSRB hefur ekki fengið upplýsingar um þá heildarendurskoðun og mótmælir því harðlega að eiga ekki aðild að þeirri vinnu. Húsnæðisöryggi, sem felur í sér viðráðanlegan húsnæðiskostnað og trygga búsetu er einn af hornsteinum lífskjara launafólks. Eðlilegt er að BSRB, stærstu heildarsamtök opinbera starfsmanna, eigi aðild að vinnu sem er svo mikilvæg fyrir lífskjör félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins.

Lækkun erfðafjárskatts

Með frumvarpinu er lagt til að skattfrelsismörk erfðafjárskatts hækki úr 1,5 m.kr. í 5 m.kr. og taki síðan árlegum breytingum miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Áætlað er að breytingin leiði til 500 m.kr. tekjulækkunar ríkissjóðs á árinu 2021. BSRB telur eðlilegt að skattfrelsismörk hækki árlega til samræmis við verðlag en telur hækkun á skattfrelsismörkum um 3,5 m.kr. of mikla miðað núverandi efnahagsaðstæður og tekjufall ríkissjóðs. Ef vilji Alþingis stendur til þess að lækka erfðafjárskatt leggur BSRB til að hækkun skattfrelsismarka verði gerð á lengra tímabili.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?