Umsögn um frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof

Reykjavík, 5. október 2020

BSRB hefur tekið til umsagnar frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof sem sett var í samráðsgátt stjórnvalda 23. september sl. Frumvarpið byggir á vinnu nefndar sem skipuð var árið 2019 um að gera heildarendurskoðun á lögum 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. BSRB átti fulltrúa í nefndinni, ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðar og hagsmunaaðilum.

Í frumvarpinu eru ýmis atriði sem bandalagið fagnar. Má þar nefna lengingu fæðingarorlofs, lengri rétt foreldra til orlofs vegna fósturláts og andvanafæðingar, að Fæðingarorlofssjóður muni gefa út árlega tölulegar upplýsingar, m.a. um nýtingu foreldraorlofs sem og að lögin hafi verið endurskrifuð og kaflaskipting sé nú mun skýrari.

Lenging orlofs í 12 mánuði og skipting orlofs milli foreldra

BSRB fagnar sérstaklega þeim löngu tímabæra áfanga að fæðingarorlofið skuli nú lengt í 12 mánuði. Enn fremur styður BSRB þá skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra sem lögð er til í 7. gr. frumvarpsins, þ.e. að meginreglan verði jöfn skipting en að einn mánuður verði framseljanlegur. BSRB hefur lengi verið þeirrar skoðunar að réttur til fæðingarorlofs eigi að skiptast jafnt á milli foreldra. Markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof eru tvíþætt, annars vegar að tryggja samvistir barna við foreldra sína og hins vegar að gera konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Tölur frá Fæðingarorlofssjóði sýna að mæður nýta nánast allan sameiginlega réttinn og feður þann tíma sem þeim er úthlutað [1]. Tölur frá hinum Norðurlöndunum segja sömu sögu [2].

Fæðingarorlofskerfið er hornsteinn jafnréttis, bæði á vinnumarkaði og í samfélaginu. Jöfn skipting orlofs mun stuðla að því að fjarvera foreldra frá vinnumarkaði vegna barneigna verði jafn löng og áhrifin af tímabundnu brotthvarfi af vinnumarkaði þau sömu. Þá yrði slík aðgerð mikilvæg til að tryggja jafna möguleika foreldra til samveru með barni sínu og þátttöku í uppeldi barna og heimilishaldi. Í skýrslu starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum frá 2016 var lagt til að lengja fæðingarorlofið í áföngum frá 2019 til 2021. Í skýrslunni er tekið skýrt fram að æskilegt sé stefnt verði að því að skipta rétti til fæðingarorlofs jafnt á milli foreldra og vísað til hagsmuna fjölskyldna almennt og jafnréttissjónarmiða. Sjást þessi sjónarmið víða í greinargerðinni sem fylgja frumvarpinu.

Réttur einstæðra foreldra

Í 8. gr. frumvarpsins er fjallað um þau tilvik þegar fæðingarorlof lengist eða réttur til orlofs er framseldur milli foreldra. Nokkur ný atriði falla þar undir skv. frumvarpinu og telur BSRB að þau séu öll til bóta. Þannig er fjallað um að ef barn verður ekki feðrað getur móðir fengið 12 mánaða fæðingarorlof, og ef annað foreldri sætir nálgunarbanni eða brottvísun af heimili getur réttur færst yfir til hins foreldris. Það er flókið að telja upp með tæmandi hætti þau tilvik sem geta leitt til þess að eingöngu eitt foreldri taki þátt í umönnun barns. Í ljósi þessa telur BSRB mikilvægt að bætt sé við matskenndri heimild Fæðingarorlofssjóðs til að úrskurða um flutning réttinda milli foreldra. Meginmarkmið slíkrar undanþágu væri að tryggja hagsmuni barnsins af því að njóta umönnunar foreldris til jafns á við önnur börn til 12 mánaða.

Stytting tímabils töku fæðingarorlofs úr 24 mánuðum í 18 mánuði

Í 7. gr. frumvarpsins er einnig lögð til sú breyting að tímabil sem foreldrar hafa til töku fæðingarorlofs er stytt úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Í meðförum nefndarinnar var vísað til þess að í flestum sveitarfélögum ættu börn kost á dagvistun við 18 mánaða aldur og mörg sveitarfélög hafa stefnu um að koma börnum inn á leikskóla fyrir þann tíma. Þó er ljóst að ástandið er með ólíkum hætti milli sveitarfélaga og má nefna að í sumum hverfum Reykjavíkur er mikill vandi við að koma ungum börnum inn á leikskóla. Þá er ljóst að heimsfaraldur Covid-19 hefur haft alvarleg áhrif á fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga og óvíst um hvernig þau mál þróast, þó að sjálfsögðu vonist bandalagið til þess að grunnþjónusta við barnafjölskyldur verði ekki skert. Ísland er eitt Norðurlandanna þar sem börn eiga ekki lögbundinn rétt til dagvistunar. BSRB telur varhugavert að stíga þetta skref að stytta tímabil orlofs í 18 mánuði áður en dagvistunarbilið verður brúað. Í þessu samhengi má nefna að starfshópurinn um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum lagði einnig til að öllum börnum yrði tryggt leikskólapláss við 12 mánaða aldur og að skipuð yrði sérstök verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga til að vinna að því. Þeirri tillögu hefur ekki verið fylgt eftir og kallar BSRB eftir því að dagvistunarmál verði tekin til skoðunar í félagsmálaráðuneytinu á ný. Þar til þau mál hafa verið leyst leggur BSRB til óbreyttan tíma til töku fæðingarorlofs, þ.e. 24 mánuði til að gera foreldrum betur kleift að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Lágmarksgreiðslur óskertar

Í frumvarpinu eru engar breytingar lagðar til á greiðslum til foreldra í fæðingarorlofi. BSRB gerir ekki athugasemd við hámarksgreiðslurnar eins og þær eru nú, en telur þó eðlilegt að þær fylgi almennri launaþróun í landinu og hækki með reglulegu millibili. BSRB ítrekar fyrri kröfur um að greiðslur sem samsvara lágmarkslaunum verði óskertar, en nú miðast allar greiðslur við 80% af fyrri launum. Þann 1. janúar 2021 verða lágmarkslaun fyrir fullt starf á íslenskum vinnumarkaði 351.000 kr., og leggur bandalagið ríka áherslu á að foreldrar í láglaunastörfum fái óskert fæðingarorlof.

Að lokum

BSRB ítrekar stuðning sinn við lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og jafna skiptingu milli foreldra, og hvetur til þess að frumvarpið fari að því leyti óbreytt til meðferðar Alþingis, en gera mætti þær smávægilegu breytingar sem bandalagið leggur einnig til, svo sem varðandi tímabil töku og óskertar lágmarksgreiðslur.

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur

[1] Svar félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fæðingar- og foreldraorlof.

[2] Tölur og umfjöllun má m.a. sjá í nýrri skýrslu Kvenréttindafélags Íslands, Norges kvinnelobby og Sveriges kvinnolobby þar sem fæðingarorlofskerfi Norðurlandanna eru borin saman.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?