Umsögn um frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna

Reykjavík, 13. ágúst 2020

BSRB hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (kynjajafnréttislögin) sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda í júlí. BSRB tók þátt í vinnu við frumvarpið á fyrri stigum í gegnum starfshópa sem störfuðu sl. vetur í forsætisráðuneytinu. Þó voru lokadrög frumvarpsins ekki lögð fyrir fund fulltrúa í hópunum. Meðfylgjandi eru athugasemdir BSRB við frumvarpið, en bandalagið áskilur sér jafnframt rétt til að koma að frekari athugasemdum á seinni stigum, svo sem við meðferð Alþingis.

Gildissvið, markmið og orðskýringar

BSRB fagnar því að gildissvið kynjajafnréttislaganna sé víkkað út frá því að gilda bara um karla og konur yfir í að taka einnig til einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Í umræðu í vinnuhópum var þetta atriði töluvert rætt og farið yfir ólík sjónarmið. Að mati BSRB er mikilvægt að halda á lofti þeim veruleika sem við búum við í dag, þ.e. að fullu jafnrétti milli karla og kvenna er ekki náð. Umræða og áherslur í jafnréttismálum eru þó í stöðugri þróun og telur BSRB mikilvægt að stuðla einnig að því að kynsegin fólk og aðrir sem skilgreina sig utan hefðbundinnar tvíhyggju kynjakerfis séu ekki undanskilin. Að mati BSRB hefur við smíði frumvarpsins tekist vel að halda jafnvægi á þessum sjónarmiðum. Þá fagnar BSRB því einnig að inn í lögin sé komið ákvæði um fjölþætta mismunun.

BSRB gerir athugasemdir við skilgreiningu hugtakanna kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni sem fram koma í 4. og 5. tl. 2. gr. Í báðum tilvikum er fjallað um að hegðun þurfi að vera í óþökk þess sem fyrir henni verður og telur BSRB að fella eigi þetta skilyrði burt úr báðum skilgreiningum. Í Evróputilskipun 2002/73/EB eru sambærileg ákvæði en orðið sem notað er þar er unwanted. Að mati BSRB gengur hugtakið í óþökk lengra en enska fyrirmyndin. Þá hefur ASÍ í sinni umsögn vísað til ILO samþykktar 190, sem íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að fullgilda. Í skilgreiningum ILO samþykktarinnar er ekki fjallað um hvernig þolandi upplifir áreitnina, heldur er hugtakið óviðunandi notað. BSRB telur að farsælla sé að skilgreina þessi mikilvægu hugtök án tillits til þess hvernig viðkomandi þolandi túlkar gerðir gerandans. Í íslenskri þýðingu tilskipunar 2002/73/EB er hugtakið kynferðisleg áreitni skilgreint á eftirfarandi hátt:

Hvers kyns óæskilegt framferði, með orðum, án orða eða af kynferðislegum toga, sem á sér stað og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu einstaklings, einkum þegar skapað er ógnandi, fjandsamlegt, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi andrúmsloft.

Þarna er hugtakið óæskilegt notað, og telur BSRB að þessi þýðing sé heppileg skilgreining á hugtakinu kynferðisleg áreitni og setja mætti upp skilgreiningu á kynbundinni áreitni með sambærilegum hætti.

Réttindi og skyldur

BSRB telur að flestar þær breytingar sem gerðar hafa verið á ákvæðum um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu séu til bóta. BSRB leggur áherslu á að Jafnréttisstofu verði gert kleift að sinna stærra hlutverki við eftirlit og eftirfylgni vottunar. Þá er jákvætt að skerpt hafi verið á dagsektarheimildum Jafnréttisstofu.

Í 5. gr. frumvarpsins er jafnlaunaregla sú sem áður var í 19. gr. fyrri laga nr. 10/2008. BSRB fagnar því að tekið sé út skilyrði um sama atvinnurekanda og telur tækifæri felast í því að ný réttarframkvæmd verði til þar sem heimilt verði að horfa til sambærilegra starfa þrátt fyrir að þau séu ekki hjá sama atvinnurekanda. Gæti þar t.d. verið um að ræða dóttur- og móðurfyrirtæki, aðalverktaka og undirverktaka eða ólíkar stofnanir ríkis eða sveitarfélaga.

Í 3. mgr. 5. gr. er ákvæði um launaleynd sem er samhljóða núgildandi ákvæði. BSRB og ASÍ lögðu til í vinnu við frumvarpið að gengið yrði lengra í því að afnema launaleynd við endurskoðun jafnréttislaga nú. Núgildandi ákvæði hefur haft sáralítil eða engin áhrif í átt til aukins launagagnsæis. Fjölmargar alþjóðastofnanir og fræðimenn telja að launagagnsæi gæti verið mikilvægt skref í að stuðla að launajafnrétti kynjanna. Í umsögn ASÍ um frumvarpið er farið yfir þrjár tillögur í átt að auknu launagagnsæi. BSRB tekur undir tillögur ASÍ og leggur til að lagðar verði skyldur á fyrirtæki og stofnanir að birta með reglubundnum hætti ákveðna tölfræði úr launabókhaldi, auk þess að uppfylla aðrar skyldur laganna. Jafnréttisstofa gæti haft eftirlit með þessu ákvæði.

BSRB lagði til við vinnslu frumvarpsins að hin svokallaða forgangsregla jafnréttislaga yrði lögfest. Reglan kom fyrst fram í dómi Hæstaréttar í máli 339/1990 og inntak hennar er að veita skuli einstaklingi af því kyni sem hallar á á starfssviðinu starf ef viðkomandi er í það minnsta jafnhæf/ur og keppinautur. Reglan hefur verið staðfest í dómum Hæstaréttar og úrskurðum kærunefndar jafnréttismála margoft síðan. BSRB telur því engin rök hníga gegn því að reglan verði innleidd í lögin með berum orðum. Dómstólar hefðu eftir sem áður það hlutverk að túlka og beita reglunni, en almenningur og atvinnurekendur yrðu jafnframt meðvitaðri um gildi hennar og mikilvægi þess að gæta að jafnrétti við mannaráðningar.

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?