Umsögn um frumvarp um stjórnsýslu jafnréttismála

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála

Reykjavík, 29. október 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála. BSRB tók þátt í vinnu við breytingu á kynjajafnréttislögum á fyrri stigum í gegnum starfshópa sem störfuðu sl. vetur í forsætisráðuneytinu og er frumvarp þetta afraksturs þeirrar vinnu, þó það hafi verið samið í ráðuneytinu.

BSRB fagnar því að sett séu sérstök lög um stjórnsýslu jafnréttismála, í stað þess að hafa kafla í kynjajafnréttislögunum sem fjalla um atriði frumvarpsins. Staðan hvað varðar löggjöf á sviði jafnréttismála hefur þróast töluvert frá því jafnréttislög nr. 10/2008 voru sett, og eru nú þrír lagabálkar sem falla undir regnlífarhugtakið jafnréttismál og eru nefndir sérstaklega í 1. gr. frumvarpsins. Einnig hefur verið bætt við í frumvarp um kynjajafnrétti ákvæði um fjölþætta mismunun, og fagnar BSRB því tímabæra skrefi.

Jafnréttisstofa

BSRB leggur áherslu á að Jafnréttisstofu verði gert kleift að sinna þeim auknu verkefnum sem stofnuninni hafa verið falin á síðustu árum, m.a. með setningu laga nr. 85 og 86/2018. Verði frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna að lögum mun eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu vegna jafnlaunavottunar einnig aukast, auk þess að við bætist jafnlaunastaðfesting.

Í frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna er gert ráð fyrir að fjölga þurfi um eitt stöðugildi innan Jafnréttisstofu, en að það rúmist innan fjárhagsramma málaflokks jafnréttismála. BSRB telur ástæðu til að ætla að umfang verkefna hjá Jafnréttisstofu muni aukast meira en sem nemur einu stöðugildi verði þessi tvö frumvörp að lögum, einnig með vísan til lagabálkanna tveggja frá 2018. Ganga þarf rækilega úr skugga um að stofnunin hafi burði til að sinna hlutverki sínu skv. lögunum og hafi til þess nægilegt fjármagn.

Kærunefnd jafnréttismála

Almennt telur BSRB að breytingar á ákvæðum um kærunefnd jafnréttismála séu jákvæðar, svo sem ákvæði um fjölbreyttara hæfi nefndarfulltrúa. Þá er einnig jákvætt að bætt sé við heimild til að beina fyrirmælum um tilteknar úrbætur til málsaðila ef um brot er að ræða.

BSRB styður að frumvarpið verði að lögum en hvetur Alþingi til þess að tryggja Jafnréttisstofu nægilegt fjármagn til þess að geta sinnt verkefnum sínum með fullnægjandi hætti. Fulltrúar bandalagsins eru tilbúnir að mæta fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og ræða þessar athugasemdir.

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðing

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?