Umsögn um frumvarp um vernd uppljóstrara

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um vernd uppljóstrara, 362. mál

Reykjavík, 30. desember 2019

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um vernd uppljóstrara sem byggir á vinnu nefndar forsætisráðherra um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um stöðu uppljóstrara með það að markmiði að skýr löggjöf gildi um vernd þeirra hér á landi. BSRB fagnar frumvarpinu og telur það vera til þess fallið að auka gagnsæi og traust í rekstri fyrirtækja og hjá hinu opinbera. Bandalagið styður frumvarpið að mestu leyti, en veltir þó upp nokkrum atriðum sem æskilegt er að allsherjar- og menntamálanefnd horfi til við meðferð málsins.

Í 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að starfsmenn ríkis, sveitarfélaga og lögaðila sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera verði gert skylt að miðla upplýsingum og gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda hans. Brot gegn þeirri skyldu eru ekki refsiverð samkvæmt frumvarpinu, en í greinargerð er fjallað um ábyrgð á grundvelli almennra reglna, sbr. einkum reglna starfsmannaréttar.

Bandalagið telur óljóst hvað felist í þessari skyldu til innri uppljóstrunar og hvaða starfsmannaréttarlegu viðurlög átt er við. Í þessu samhengi þarf að horfa bæði til ákvæða laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 og kjarasamninga við ólíka viðsemjendur. Ber til dæmis að líta til þess að ákvæði um áminningar eru í kjarasamningum hjá starfsmönnum sveitarfélaga en í lögum gagnvart ríkisstarfsmönnum. Hjá fyrirtækjum sem eru í meirihlutaeigu opinberra aðila, svo sem opinberum hlutafélögum, geta svo gilt aðrar reglur þar sem þeir starfsmenn eiga almennt ekki rétt til áminningar áður en til uppsagnar kemur.

BSRB telur nauðsynlegt að skýra þessa skyldu nánar. Þá telur BSRB einnig rétt að skoða hvort mæla þurfi fyrir um aðkomu stéttarfélaga að ferli
uppljóstrunar. Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um löggjöf í Svíþjóð. Þar er möguleiki að uppljóstra til stéttarfélags. BSRB telur ekki skýrt hvort stéttarfélög hér á landi falli undir hugtakið „utanaðkomandi aðili“ í skilningi 3. gr. frumvarpsins um ytri uppljóstrun. Þá er ekki heldur ljóst hvernig stéttarfélög eigi að bregðast við ef uppljóstrað er til þeirra. Frumvarpið gerir þannig ekki ráð fyrir því að stéttarfélög eða starfsmenn þeirra geti notið verndar uppljóstrara, en BSRB veltir því upp hvort æskilegt sé að gert verði ráð fyrir því.

BSRB telur jákvætt að settar séu skyldur á fjármálaráðherra og sveitarstjórnir að setja reglur um verklag um uppljóstrun, sbr. 5. gr frumvarpsins. Þó telur bandalagið að mæla þurfi fyrir um tímafresti í því samhengi. Að mati bandalagsins er æskilegt að slíkar reglur taki gildi samhliða gildistöku laganna.

Að lokum tekur BSRB undir umsögn Alþýðusambands Íslands hvað varðar hugtakið „góð trú“ og telur að skilgreina eigi hugtakið óháð hvötum og tengja það einungis við það sem uppljóstrari vissi eða mátti vita um áreiðanleika upplýsinga eða gagna sem hann miðlar.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?