Umsögn um lífeyrismál

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, 873. mál.

Reykjavík, 4. október 2016

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, varðandi breytingar á A-deild sjóðsins.

Endurskoðun lífeyrismála opinberra starfsmanna hefur staðið yfir í nokkur ár. Upphafið má rekja til þess að við undirritun Stöðugleikasáttmálans, sem undirritaður var af ríki, sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins árið 2009, var m.a. ákveðið að þessir aðilar myndu í sameiningu taka lífeyrismál og málefni lífeyrissjóða til umfjöllunar. Í kjölfarið var skipaður vinnuhópur þessara aðila og var meginmarkmið hans að komast að sameiginlegri niðurstöðu um framtíðarskipan lífeyrismála. Þá var skipaður starfshópur um málefni Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (hér eftir LSR) og Brúar en hlutverk hans var m.a. að fara yfir stöðu A- og B-deildar og koma með tillögur að framtíðarlausnum á vanda þeirra þar sem töluvert vantaði upp á að sjóðurinn ætti fyrir framtíðarskuldbindingum. Í hópnum áttu sæti fulltrúar ríkis, sveitarfélaga, Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands sem undirrituðu samkomulag um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna varðandi A-deild lífeyrissjóðanna þann 19. september 2016 (hér eftir samkomulagið).

Samkomulagið felur í sér stefnumörkun þess að lífeyrisréttindi verði jöfnuð milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins þannig að reglur um ávinnslu réttinda og lífeyristökualdur opinberra starfsmanna taki breytingum. Allir búi þá við samræmt fyrirkomulag í lífeyrismálum og geti færst sig milli lífeyrissjóða hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi áhrif á réttindaávinnslu og unnið verði markvisst að því að jafna launakjör á opinberum og almennum vinnumarkaði. Slíkar breytingar myndu að óbreyttu valda skerðingu á lífeyrisréttindum opinbers starfsfólks. Til að tryggt verði að áunnin lífeyrisréttindi núverandi sjóðfélaga A-deildar LSR og Brúar verði óbreytt og framtíðarávinnsla jöfn því sem annars hefði verið, er m.a. markmið og forsenda samkomulagsins að „réttindi núverandi sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar verði jafn verðmæt fyrir og eftir þær breytingar á skipan lífeyrismála“ sem fjallað er um í samkomulaginu, sbr. c. lið 1. gr. samkomulags. Í stað jafnrar ávinnslu réttinda yfir starfsævina muni réttindaávinnsla verða aldurstengd. Þá muni almennur lífeyristökualdur hækka úr 65 árum í 67. Hins vegar muni núverandi sjóðfélagar halda óbreyttum réttindum sem þeir hafa nú í LSR og Brú og geti hafið töku lífeyris 65 ára ef þeir svo kjósa.

Við gerð samkomulagsins var skilningur BSRB, BHM og KÍ sá að til að tryggð væru réttindi sjóðfélaga A-deildar LSR myndi ríki leggja LSR til framlag sem myndaði svonefndan lífeyrisaukasjóð. Hlutverk þessa lífeyrisauka væri til að tryggja að áunnin réttindi fram að árslokum 2016 yrðu ekki skert og að framtíðarréttindi yrðu óbreytt. Töldu þessi samtök launafólks að skilningur viðsemjenda væri sá sami enda er enginn halli á sjóðnum miðað við núverandi skuldbindingar hans. Það er hins vegar fyrirséður halli vegna framtíðarskuldbindinga hans og er það meðal ástæðna þess að samtök opinbers launafólks töldu brýnt að brugðist yrði við og undirrituðu umrætt samkomulag. Allir útreikningar um fjárhæð lífeyrisauka miðuðu þannig að því að tryggt væri að framtíðarávinnsla væri jöfn því sem hún annars hefði verið. Lífeyrisaukinn kæmi jafnframt í staðinn fyrir núgildandi ábyrgð launagreiðenda á réttindum hjá LSR sem felst í því að ef A-deild LSR stendur ekki undir sér þá ber stjórn sjóðsins að hækka mótframlag launagreiðenda. Það eru því í raun ekki sjóðfélagar sjálfir sem bera ábyrgð á réttindum heldur launagreiðendur. Lífeyrisaukinn á þannig að tryggja fulla fjármögnun skuldbindinga sjóðsins, núverandi og til framtíðar, fyrir þá sem eiga réttindi og eru að greiða í sjóðinn fram til ársloka 2016 en í staðinn muni ábyrgð launagreiðenda á réttindum vera afnumin.

Þó nokkur fjöldi sjóðfélaga A-deildar LSR starfar á almennum vinnumarkaði. BSRB leggur ríka áherslu á að lögin kveði með skýrum hætti á um að ef sjóðfélagi sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisauka viðhaldi þeim rétti þó hann skipti um starf. Þannig geti einstaklingur sem hefur greitt til A-deildar LSR en unnið á almennum vinnumarkaði skipt um starf og ef það starf veitir honum áframhaldandi aðild að A-deild LSR, skuli réttur til lífeyrisauka vera sá sami enda hafi ekki orðið lengra en 12 mánaða rof á greiðslu iðgjalda, eða eftir atvikum 24 mánaða rof vegna veikinda, náms eða fæðingarorlofs.

Af þessum ástæðum gerir BSRB verulegan fyrirvara við stuðning sinn til framgang þessa þingmáls þar sem framangreindur skilningur á samkomulaginu endurspeglast ekki í frumvarpinu. Athugasemdir BSRB eru efnislega fjórar en samtals eru lagðar til fimm breytingar svo að tryggja megi að markmið samkomulagsins endurspeglist í frumvarpi því sem er til umsagnar. Bandalagið gerir þá kröfu að ákvæði þess taki eftirfarandi breytingum. Í fyrsta lagi varða athugasemdirnar að áunnin réttindi núverandi sjóðfélaga skuli vera óskert eftir breytingar á skipan lífeyrismála, sbr. athugasemd 1 og 2. Í öðru lagi að skýrt sé kveðið á um að hafi sjóðfélagi áunnið sér rétt til lífeyrisauka viðhaldist sá réttur þó að viðkomandi skipti um starf enda geti hann átt áframhaldandi aðild að A-deild LSR, sbr. athugasemd 3. Í þriðja lagi að tilgreint sé með skýrum hætti hvernig iðgjaldagreiðslur annarra launagreiðenda en ríkis og sveitarfélaga, verði háttað eftir breytingar núverandi sjóðfélaga sem ekki vinna hjá ríki og sveitarfélögum, sbr. athugasemd 4. Það kemur fram með skýrum hætti í samkomulaginu en af einhverjum ástæðum er það ekki tilgreint í frumvarpinu. Í fjórða og síðasta lagi að skýrar sé kveðið á um að ef varúðasjóður uppfylli ekki hlutverk sitt um að styðja við lífeyrisaukasjóð þá sé það hlutverk opinberra launagreiðenda að bregðast við, sbr. athugasemd 5. Hér á eftir verða gerðar tillögur til breytinga á frumvarpinu, ástæður tillagnanna skýrðar ásamt því að til frekari skýringar eru ákvæðin eins og þau hljóða nú ásamt tillögum BSRB til breytinga sett fram í heild sinni.

1) Við a. lið 7. gr. frumvarpsins bætist við 3. málsliður svohljóðandi:

„Í samþykktunum skal tryggt að ekki verði kveðið á um lakari réttindi hvers og eins sjóðfélaga, sem greitt hafa í A-deild fyrir 31. desember 2016, en lög kváðu á um 1. október 2016.“

Skýring: Í samræmi við inngang umsagnar þessarar skal tryggt að áunnin réttindi núverandi sjóðfélaga verði óskert. Ákvæði a.liðar 7. gr. frumvarpsins hljóði því svo í heild en breytingartillagan er undirstrikuð:

„Frá og með 1. janúar 2017 skal A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrissjóða og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, laga þessara eftir því sem við á og samþykkta er fyrir sjóðinn gilda. Stjórn sjóðsins skal aðlaga samþykktir sjóðsins ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum þessum eftir því sem við á og leggja þær þannig breyttar fyrir ráðherra til staðfestingar, sbr. 28. gr. laga nr. 129/1997, eigi síðar en 1. nóvember 2016. Í samþykktunum skal tryggt að ekki verði kveðið á um lakari réttindi hvers og eins sjóðfélaga, sem greitt hafa í A-deild fyrir 31. desember 2016, en lög kváðu á um 1. október 2016.

2) Við 1. mgr. b liðar (IX.) 7. gr. frumvarpsins bætist nýr 2. málsliður:

„Hlutverk lífeyrisauka er að tryggja að áfallnar skuldbindingar og réttindi þeirra sem eru sjóðfélagar við árslok 2016 séu á hverjum tíma óskert og til að framtíðarávinnsla réttinda verði óbreytt.“

Skýring: Í samræmi við inngang umsagnar þessarar skal tryggt að áunnin réttindi núverandi sjóðfélaga verði óskert. Í samkomulaginu er ávallt vísað til hugtaksins sjóðfélaga og töldu fulltrúar BSRB því skýrt að það tæki til réttinda þeirra sem eru að greiða í sjóðinn eða hafa greitt í sjóðinn, sem og þeirra sem hafa hafið töku lífeyris. Sá skilningur byggir á 2. gr. laga um LSR hljóðar svo: „Sjóðfélagar samkvæmt lögum þessum eru þeir einstaklingar sem greiða iðgjald til sjóðsins, þeir sem njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum og þeir einstaklingar sem með iðgjaldagreiðslum hafa áunnið sér rétt í sjóðnum en greiða ekki lengur iðgjald og hafa ekki hafið töku lífeyris úr sjóðnum.“

Ákvæði 1. mgr. b.liðar 7. gr. frumvarpsins hljóði því í heild svo en breytingartillagan er undirstrikuð:

„Ríkissjóður skal eigi síðar en 31. desember 2016 greiða 91,279 ma.kr. framlag til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem ætlað er til þess að standa undir lífeyrisauka til sjóðfélaga sem rétt eiga á honum skv. 2. og 3. mgr. Hlutverk lífeyrisauka er að tryggja að áfallnar skuldbindingar og réttindi þeirra sem eru sjóðfélagar við árslok 2016 séu á hverjum tíma óskert og til að framtíðarávinnsla réttinda verði óbreytt. Framlagið er ákvarðað á grundvelli tryggingafræðilegra forsendna í árslok 2015 að öðru leyti en því að miðað er við lífslíkur byggðar á reynslu áranna 2010-2014. Greiðsla framlagsins er bundin því skilyrði að tekin verði upp í A-deild aldurstengd réttindaávinnsla og 67 ára lífeyristökualdur.“

3) Við 7. mgr. b liðar (IX.) 7. gr. frumvarpsins bætist við nýr 1. málsliður:

„Þeir sjóðfélagar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem rétt eiga til lífeyrisauka í A-deild sjóðsins skulu eiga áframhaldandi rétt til lífeyrisauka skipti þeir um starf enda sé starfið hjá ríki, sveitarfélagi eða öðrum atvinnurekendum sem veitir þeim rétt til aðildar að sjóðnum.“

Skýring: Núverandi sjóðfélagar starfa hjá ríki, sveitarfélögum og ýmsum atvinnurekendum á almennum vinnumarkaði. Mikilvægt er að tryggt sé að allir sjóðfélagar sem eiga rétt til lífeyrisauka njóti hans áfram þó þeir skipti um starf. Miðað við fyrirliggjandi frumvarp er það eingöngu tryggt ef núverandi sjóðfélagar skipta um starf og færa sig milli ríkis og sveitarfélaga og milli LSR og Brúar. Það verður því að kveða á um það með skýrum hætti að ef sjóðfélagar hafi rétt til lífeyrisaukans þá viðhaldist sá réttur þó þeir skipti um starf að því gefnu að þeir geti átt aðild áfram að A-deild LSR. Þannig geti núverandi sjóðfélagi sem t.d. starfar hjá atvinnurekanda á almennum vinnumarkaði og hefur greitt í LSR haldi jöfnum og óskertum lífeyrisréttindum ef hann skiptir um starf og hefur starf hjá ríki, sveitarfélögum eða öðrum launagreiðendum sem veitir aðild að A-deild LSR. Ákvæði 1. mgr. b.liðar 7. gr. frumvarpsins hljóði því í heild svo en breytingartillagan er undirstrikuð:

Þeir sjóðfélagar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem rétt eiga til lífeyrisauka í A-deild sjóðsins skulu eiga áframhaldandi rétt til lífeyrisauka skipti þeir um starf enda sé starfið hjá ríki, sveitarfélagi eða öðrum atvinnurekendum sem veitir þeim rétt til aðildar að sjóðnum. Þeir sjóðfélagar Brúar lífeyrissjóðs sem rétt eiga á lífeyrisauka hjá Brú skulu eiga rétt á lífeyrisauka hjá A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins skipti þeir um starf og verði sjóðfélagar í A-deild, sbr. þó 5. mgr. Tilskilið er að sambærilegt ákvæði sé sett í samþykktir Brúar, að breyttu breytanda, og að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brú lífeyrissjóður geri með sér samkomulag um kostnað við lífeyrisauka vegna sjóðfélaga sem færast milli sjóðanna.“

4) Við 8. mgr. b liðar (IX.) 7. gr. frumvarpsins bætist við nýr málsliður á eftir 4. málslið:

„Aðrir launagreiðendur greiða breytilegt iðgjald.“

Skýring: Eins og áður hefur komið fram er hluti sjóðfélaga starfandi hjá öðrum launagreiðendum en stofnunum og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga. Það er því mikilvægt að lögin endurspegli það og fjalli með sama hætti um hina mismunandi launagreiðendur. Ofangreind tillaga að viðbót við frumvarpið er efnislega sambærilegu ákvæði og er að finna í samkomulaginu í lið 4 d. Hér er því um tillögu að ræða sem af einhverjum ástæðum er ekki hluti frumvarpsins en er hins vegar mjög skýrt kveðið á um í samkomulaginu.

Ákvæði 8. mgr. b.liðar 7. gr. frumvarpsins hljóði því í heild svo en breytingartillagan er undirstrikuð:

„Launagreiðendur sem ekki eru einkanlega fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum skulu greiða ríkissjóði til baka þann hluta af framlagi því sem ríkissjóður greiðir skv. 1. mgr. og fer til þess að greiða lífeyrisauka starfsmanna þessara launagreiðenda. Þessi endurgreiðsla fer fram þannig að launagreiðendur, aðrir en ríkisaðilar í B- og C-hluta ríkisreiknings, greiða sérstakt iðgjald sem standa á undir lífeyrisauka þessara starfsmanna. Iðgjald þetta skal endurskoða árlega í samræmi við tryggingafræðilega athugun og skal ákvörðun um hækkun þess eða lækkun liggja fyrir eigi síðar en 1. október fyrir komandi almanaksár. Ríkisaðilar í B- og C-hluta ríkisreiknings endurgreiða ríkissjóði árlega lífeyrisauka starfsmanna sinna á grundvelli útreiknings Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Aðrir launagreiðendur greiða breytilegt iðgjald.

5) Breytingar verði gerðar á 3. málslið c liðar 3. mgr. c liðar (X.) 7. gr. frumvarps svohljóðandi:

„Verði það niðurstaðan skulu ríki og sveitarfélög bregðast við því þannig að markmið um jafn verðmæt réttindi sjóðfélaga séu tryggð.“

Skýring: Það er skilningur samningsaðila að ef varúðasjóður uppfyllir ekki hlutverk sitt um að styðja við lífeyrisaukasjóð þannig að réttindi sjóðfélaga verði jafn verðmæt eftir breytingar og fyrir þær, skuli launagreiðendur bregðast við. Í því felst að ef núverandi útreikningar standast ekki skulu gerðir nýir útreikningar að 20 árum liðnum og launagreiðendur greiði til varúðarsjóðs sem nemur þeim mismuni sem kann að vera fyrir hendi. Um mjög þarfa breytingu á frumvarpinu er að ræða þar sem í athugasemdum við 2. tölulið segir „Ekki er gert ráð fyrir frekari greiðslu framlags þótt þær forsendur kunni mögulega að breytast, sbr. þó 3. tölul.“ Það er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að c. liður IV liðar viðauka 1 með samkomulaginu, um varúðasjóð lífeyrisaukasjóðs A-deildar LSR, kom inn á síðari stigum samningaviðræðna og eru litlar sem engar skýringar að finna í frumvarpinu, hvorki í greinargerð né athugasemdum þess annað en það sem kemur fram í ákvæðinu sjálfu.

Ákvæði c liðar 3. mgr. c liðar (X) 7. gr. frumvarpsins hljóði því svo í heild en breytingartillagan er undirstrikuð:

„Komi í ljós að varúðarsjóðurinn geti ekki staðið við hlutverk sitt, þ.e. ef eign sjóðsins dugir ekki til að styðja þannig við lífeyrisaukasjóð að komist verði hjá skerðingu á greiðslum úr honum, skulu launagreiðendur taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig við því verði brugðist. Í þeim viðræðum skal lagt mat á hvort þær tryggingafræðilegu forsendur sem byggt er á við ákvörðun á framlagi í lífeyrisaukasjóð, svo sem forsendur varðandi útreikning á lífslíkum, hafi leitt til vanmats á fjárþörf sjóðsins. Verði það niðurstaðan skulu ríki og sveitarfélög bregðast við því þannig að markmið um jafn verðmæt réttindi sjóðfélaga séu tryggð.

 

Fyrir hönd BSRB

Helga Jónsdóttir
Framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?