Umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna COVID-19-heimsfaraldursins

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu atvinnulausra vegna COVID-19-heimsfaraldursins, 723. mál.

Reykjavík, 30. apríl 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um hækkun fjárhæða atvinnuleysistrygginga. BSRB hefur lagt til hækkun til samræmis við taxtahækkanir lífskjarasamnings í umsögnum um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 og mál sem varða efnahagsaðgerðir stjórnvalda og telur mikilvægt að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar sem allra fyrst.

BSRB leggur til að grunnatvinnuleysisbætur hækki úr 289.510 í 320.720 en það jafngildir hækkun kauptaxta samkvæmt lífskjarasamningi á árunum 2019 og 2020. Mikilvægt er að fjárhæðir atvinnuleysistrygginga fylgi launahækkunum til samræmis við kjarasamninga.

BSRB styður liði 2-4 í ályktuninni óbreytta.

Í tillögunni er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að breyta reglugerðum og að leggja fram frumvarp til að hækkunar atvinnuleysistrygginga. Hátt í 60.000 manns eru nú atvinnulaus að öllu leyti eða að hluta. Þá munu námsmenn fljótlega ljúka skólavetrinum og erfitt verður fyrir þann stóra hóp að finna vinnu á næstunni. BSRB telur því mikilvægt að atvinnuleysisbætur hækki sem fyrst og nái einnig til námsmanna.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?