Umsögn um tillögu til þingsályktunar um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, 160. mál

Reykjavík, 15. febrúar 2022

BSRB hefur fengið ofangreinda þingsályktunartillögu til umsagnar þar sem lagt er til að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samráði við félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, að hefja viðræður við samtök opinberra starfsmanna um afnám þeirra ákvæða í lögum sem takmarka starf opinberra starfsmanna við 70 ára aldur.

BSRB fagnar tillögunni en vill ítreka það sem fram hefur komið í umsögnum bandalagsins um samskonar þingmál á undanförnum árum. Þar hefur bandalagið bent á að vanda verði til verka við slíka vinnu og gæta að réttindum opinberra starfsmanna, t.a.m. þegar kemur að lífeyrissjóðsgreiðslum þeirra. Það er skoðun bandalagsins að allar breytingar sem varða starfskjör launafólks eigi að vinna í samvinnu viðeigandi aðila kjarasamninga.

Bandalagið leggur því áherslu á að allar hugmyndir um breytingar á starfslokaaldri opinberra starfsmanna verði skoðaðar heildstætt og með tilliti til lífeyristöku. Í því sambandi vill BSRB benda á að árið 2016 var skipaður starfshópur sem hefur það hlutverk að greina með heildstæðum hætti þörf á því að lífeyristökualdur tiltekinna starfshópa verði lægri en almennt tíðkast. Starfshópurinn er enn að störfum þrátt fyrir að hafa átt að skila niðurstöðu árið 2020. Nú vinnur starfshópurinn að rannsókn í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og telur bandalagið afar mikilvægt að beðið verði niðurstöðu hópsins áður en teknar verði stefnumótandi ákvarðanir hvað varðar afnám reglna um starfslokaaldur opinberra starfsmanna.

Bandalagið vísar að öðru leyti til umsagna sinna um samskonar þingmál, sbr. 397. mál á 150. löggjafarþingi, dags. 27. mars 2020 og 185. mál á 151. löggjafarþingi dags. 3. mars 2021, til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þar sem fram koma áherslur bandalagsins.


Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?