Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026, 627. mál

Reykjavík, 12. apríl 2021

BSRB hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026 og þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita álit sitt á henni.

Sl. haust veitti BSRB allítarlega umsögn um fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 og gerði alvarlegar athugasemdir við ákvæðna þætti hennar. Litlar sem engar breytingar hafa verið gerðar á megináherslum áætlunarinnar og því telur bandalagið rétt að ítreka nokkrar af fyrri athugasemdum.

Í umsögninni leggur BSRB áherslu á að velferð og afkoma þeirra sem þyngstar byrðar bera vegna faraldursins verði ekki fyrir borð borin á næstu árum. Skortur á umbótum í atvinnuleysistryggingakerfinu og áhersla á stöðvun skuldasöfnunar gengur í berhögg við orð ríkisstjórnarinnar um að markmiðið sé að vaxa út úr kreppunni. Hætt er við að sú stefna sem birtist í fjármálaáætluninni, andvaraleysi í málefnum atvinnulausra og aðhaldsaðgerðir til að draga úr skuldasöfnun hins opinbera, muni hægja á efnhagsbata næstu ára.

Atvinnuleysi stærsta áskorunin

Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir miklu atvinnuleysi næstu ár. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir 7,8% atvinnuleysi og að það lækki síðan hægt á næstu árum en verði enn um 4,3% árið 2026 samkvæmt mati Hagstofunnar. Í þessu samhengi er rétt að benda á að árlegt atvinnuleysi á árunum 2000-2019 mældist að meðaltali um 3,4% hjá Vinnumálastofnun. Mjög mikilvægt er að bregðast við þessari alvarlegu stöðu af krafti. BSRB fagnar átaki stjórnvalda sem ætlað er að skapa 7.000 störf út árið 2021 fyrir atvinnulausa. Hins vegar dugir þessi aðgerð ein og sér ekki til enda voru 21.352 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í febrúar 2021 og 4.331 atvinnulausir í minnkuðu starfshlufalli.

BSRB leggur áherslu á að stjórnvöld bregðist við atvinnuleysinu og stöðu atvinnulausra af miklum þunga. Mikilvægt er að stjórnvöld útfæri frekari aðgerðir til að skapa störf sem fleyta fólki sem hefur misst atvinnuna og hagkerfinu í gegnum þann efnahagsvanda sem heimsfaraldurinn hefur valdið. Auk þess þarf að hækka atvinnuleysisbætur og lengja atvinnuleysisbótatímabilið.

Hækkun atvinnuleysisbóta er nauðsynleg og skynsamleg

Það er skynsamleg hagstjórn að hækka atvinnuleysisbætur við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja. Í greinagerð með fjármálaáætlun (rammagrein 1) er einmitt bent á að jaðarneysluhneigð sé hærri hjá lágtekjuheimilum, heimilum sem hafa ekki aðgang að lausum eignum og heimilum sem orðið hafa fyrir mestum skaða í kjölfar kreppunnar. Hækkun atvinnuleysisbóta mun því skila sér í aukinni einkaneyslu og þar með hagvexti. Í bráðabirgðauppgjöri Hagstofu Íslands fyrir hið opinbera árið 2020 kemur einmitt fram að einkaneysla umfram spár hafi átt þátt í því að hallarekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga varð minni en áætlað var og efnahagssamdráttur því minni en spár gerður ráð fyrir, eða 6,6 prósent af VLF samanborið við 8,6 prósent samdrátt sem fyrri fjármálaáætlun gerði ráð fyrir. Hækkun atvinnuleysisbóta mun því stuðla að hagvexti og það sem ekki er síður mikilvægt, draga úr þeim byrðum sem fólk án atvinnu hefur borið umfram aðra vegna faraldursins.

Lengja verður bótatímabil atvinnuleysistrygginga

BSRB minnir á að í kjölfar hruns fjármálakerfisins haustið 2008 var tímabil atvinnuleysistrygginga lengt tímabundið úr þremur árum í fjögur. Árið 2014 var tímabil atvinnuleysisbóta stytt í 2,5 ár, án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Spár um atvinnuleysi á næstu árum sýna að það mjög mikilvægt að lengja réttindatímabilið tímabundið í fjögur ár. Fyrir því eru þrjár ríkar ástæður. Í fyrsta lagi tryggir það betur afkomu þeirra sem eru án atvinnu, í öðru lagi dregur það úr þeirri óvissu sem fólk sem misst hefur lífviðurværi sitt vegna heimsfaraldursins býr við og í þriðja lagi léttir það á sveitarfélögunum sem tryggja fólki, að uppfylltum ákveðnum ströngum skilyrðum, fjárhagsaðstoð. Útgjöld til fjárhagsaðstoðar hafa hækkað mikið vegna efnahagsástandsins og munu aukast enn frekar verði tímibil réttinda til atvinnuleysistrygginga ekki lengt.

Um fjárhagsaðstoð gilda ströng skilyrði um tekju- og eignamörk og því fá langt í frá allir sem missa bótarétt sinn fjárhagsaðstoð. Það eru aðeins þeir allra verst stöddu sem fá þennan eina félagslega stuðning sem er í boði fyrir fólk í þessum aðstæðum. Hún er þó aðeins hugsuð sem tímabundin aðstoð og dugir engan veginn til framfærslu til lengri tíma. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig ráðstöfunartekjur lækka þegar fólk þarf að reiða sig alfarið á fjárhagsaðstoð þegar rétti til atvinnuleysisbóta sleppir. Miðað er við fullan rétt í Reykjavík og Reykjanesbæ og miðað við einstætt foreldri, einstakling sem leigir með öðrum og hjón án barna.

Lækkun ráðstöfunartekna
Heimildir: Reykjavíkurborg, Reykjanesbær, Vinnumálastofnun, Skatturinn


Af myndinni má sjá að fallið í ráðstöfunartekjum er gríðarlegt og öllum má ljóst vera að forða verður sem flestum frá því að lenda í þessari aðstöðu með lengingu réttindatímabils til atvinnuleysisbóta.

Í nýlegri rannsókn Vörðu – Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, á meðal félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB, kemur fram að rúmlega helmingur atvinnulausra félagsmanna átti erfitt með að láta enda ná saman. Atvinnulausir eru líka mun líklegri til að þurfa að leita til sveitarfélaga eða vina og ættingja eftir fjárhagsaðstoð, þiggja aðstoð hjálparsamtaka eða fá mataraðstoð. Rúmlega 22 prósent atvinnulausra félagsmanna skortir efnisleg gæði miðað við 5,5 prósent launafólks og 23 prósent atvinnulausra töldu andlega heilsu sína slæma samanborið við 7 prósent launafólks. Niðurstöðurnar sýna að fólk án atvinnu býr við mun þrengri efnahag en launafólk og gjaldi fyrir með andlegri heilsu sinni. BSRB krefst þess að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og að fólki á atvinnuleysisskrá verði boðin viðeigandi geðheilbrigðisþjónusta, þeim að kostnaðarlausu.

Opinber þjónusta skapar velsæld og hagvöxt

Í kreppu sem þeirri sem nú ríður yfir verður hið opinbera að skapa störf til að sporna við atvinnuleysi. Á síðustu misserum hefur heilbrigðiskerfið sannað sig sem grunnstoð samfélagsins ásamt menntakerfi, félagsþjónustu og almannavörnum sem leika lykilhlutverk í að tryggja lífsgæði landsmanna og framleiðslugetu hagkerfisins. Það hefur verið mikið álag á opinberu kerfunum og starfsfólki þeirra, ekki síst framlínufólki, vegna heimsfaraldursins.

BSRB bendir á að það er hægt að skapa góð störf, bæði tímabundið og til lengri tíma, í heilbrigðiskerfinu, félags- og velferðarþjónustu, skólakerfinu og í löggæslu. Mjög mikilvægt er að styrkja þessi samfélagslega mikilvægu kerfi til að forða starfsfólki frá alvarlegum afleiðingum þess álags sem faraldurinn hefur valdið og til að veita mikilvæga þjónustu.

Það er þekkt að langvarandi atvinnuleysi eða langvarandi álag í störfum getur aukið aðsókn í starfsendurhæfingu og aukið nýgengi örorku með tilheyrandi kostnaði. Niðurskurður í opinberri þjónustu mun bitna á notendum og starfsfólki og auka enn á atvinnuleysi. Þegar skorið er niður í opinberri þjónustu og dregið úr þjónustu við börn, aldraða og sjúka hefur það einnig neikvæð áhrif á framleiðni starfsfólks á vinnumarkaði af því að meiri tími fer í að sinna aðstandendum sem ekki fá fullnægjandi þjónustu. Þá er rétt að minna á að í samanburði við önnur Evrópulönd eru aðstandendur á Íslandi undir mestu álagi allra vegna umönnunar óvinnufærra ættingja, öryrkja eða aldraðra. Því er mikilvægt að efla opinbera þjónustu í stað þess að draga úr henni.

Alþjóðastofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðabankinn og OECD benda á að farsælasta leiðin fyrir samfélög og efnahag þeirra sé að vaxa út úr efnahagsvandanum. Nýta verður afl opinberra fjármála til að draga úr atvinnuleysi og tryggja afkomu þeirra sem ekki fá atvinnu sem og að efla opinbera þjónustu. BSRB hvetur ríkisstjórnina og Alþingi til að vera framsýn og efla opinbera þjónsutu á þessum víðsjárverðu tímum í stað þess að horfa í aurinn og henda krónunni.

Vorar skuldir

Eitt megin markmið ríkisstjórnarinnar í opinberum fjármálum er að stöðva skuldasöfnun árið 2025. BSRB lýsir furðu á þessari áherslu án þess þó að hvetja til óábyrgrar stefnu í opinberum fjármálum. Þvert á móti teljum við það ábyrga fjármálastjórn að gefa hagkerfinu áframhaldandi svigrúm til að komast í gegnum efnahagsþrengingarnar.

Upplýsingar í greinagerð fjármálaáætlunar og ný skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sýna að fjárhagslegur stuðningur hins opinbera á Íslandi er lítill í samanburði við önnur Evrópuríki, Bandaríkin, Kanda og Eyjaálfu. Myndin hér að neðan er úr greinagerð áætlunarinnar, bls. 28. Hér er Ísland borið saman við sjö önnur ríki. Sjálfvirk viðbrögð og sértækar aðgerðir voru samanlagt mun minni hér á árinu 2020 en í öllum hinum ríkjunum. Samdráttur í landsframleiðslu var meiri en í þremur ríkjanna og minni eða svipaður í fjórum ríkjanna.

Sjálfvirk viðbragð ríkisfjármála

Mjög hefur verið einblínt á skuldahlutfallið í viðbrögðum stjórnvalda þrátt fyrir að hið opinbera á Íslandi hafi skuldað mun minna en öll hin ríkin á myndinni. BSRB mótmælti áformum um aðhaldsaðgerðir í síðustu fjármálaáætlun og telur óráðlegt að halda áfram á sömu braut þrátt fyrir mun betri afkomu en gert var ráð fyrir í síðustu áætlun. Án aðhaldsaðgerða er nú gert ráð fyrir að skuldahlutfall hins opinbera samkvæmt fjármálareglu verði 59 prósent í lok árs 2025 en 54 prósent með aðhaldsaðgerðum. Þetta eru mun betri horfur en í síðustu áætlun vegna betri afkomu hins opinbera á árinu 2020 en gert var ráð fyrir. Mikilvægt er að styðja við umsvif í hagkerfinu en draga ekki úr þeim með óskynsamlegu markmiði um skuldastöðvun. Á einhverjum tímapunkti þarf að stöðva skuldasöfnun en það verður að taka mið af umsvifum í hagkerfinu en ekki fyrirframgefnu ártali. Fjármálaráð bendir einmitt á í álitsgerð sinni að mikilvægt sé fyrir ríkissjóð að beita ekki jafnströngum aðhaldsaðgerðum og áætlunin gerir ráð fyrir.

Það vekur einnig athygli að fjármálaráð bendir á að fjármagnsjöfnuður hins opinbera hafi lækkað verulega sl. ár og muni haldast nokkuð stöðugur sem hlutfall af VLF á tímabili áætlunarinnar, eða fara úr 1,8 prósent af VLF í 1,9% á tímabilinu þrátt fyrir að skuldsetning aukist verulega. Mjög mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar fjallað er um skuldir hins opinbera og áhrif þeirra á opinber fjármál.

Megináhersla stjórnvalda ætti að vera á fjárfestingu í arðbærum verkefnum sem stuðla að kolefnishlutleysi, fjármögnun opinberrar þjónustu og stuðningi við fólk sem misst hefur atvinnuna vegna heimsfaraldursins. Það er sanngjörn leið og jafnframt leið sem eykur velsæld og vöxt.

Ríkisstjórnin velur leið niðurskurðar en ekki vaxtar

Fjármálaáætlunin felur í sér að ekki eigi að fara þessa leið vaxtar heldur leið niðurskurðar. Árið 2022 verður gerð 2 prósent almenn aðhaldskrafa og 0,5 prósent á heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla. Tilfærslukerfin og dómstólar sæta ekki aðhaldskröfu. Á árunum 2023-2026 verður gerð 1 prósent almenn aðhaldskrafa að heilbrigðis- og öldrunarstonunum, skólum, dómstólum, bótakerfum og sjúkratryggingum undanskildum. Þá verður viðbótar aðhaldskrafa sem nemur 15 mö.kr. árlega á árunum 2023-2025. Sú aðhaldskrafa er ekki útfærð nánar. Samanlagt eiga þessar aðgerðir að skila um 34 ma.kr. afkomubata árlega árin 2023-2025 en gera má ráð fyrir að þar muni niðurskurði verða beitt umfram tekjuöflun því fram kemur í greinagerð að stefnt sé að því að útgjöld hins opinbera vaxi hægar en landsframleiðslan.

Áhersla á útgjaldasamdrátt virðist ekki eingöngu vera til þess fallin að stöðva skuldasöfnun heldur er honum einnig ætlað að leysa þann vanda sem ósjálfbær rekstur ríkissjóðs veldur til lengdar. Eins og rakið var ítarlega í síðustu umsögn BSRB um fjármálaáætlun er rekstur ríkissjóðs ósjálfbær vegna ófjármagnaðara skattalækkanna á tímabilinu sem nema um 34 mö. kr. árlega. Þetta er að frátöldum tímabundnum skattlækkunum vegna heimsfaraldursins. Markmið ríkisstjórnarinnar er að draga úr umsvifum ríkissjóðs í hagkerfinu. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við árið 2017 námu frumtekjur ríkissjóðs um 29,7 prósent af VLF og frumgjöld 29 prósent. Samkvæmt þessari síðustu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að frumtekjurnar verði 27,4 prósent árið 2026 og frumgjöldin 26,9 prósent. BSRB hafnar þessari stefnu um að draga úr mikilvægi opinberrar þjónustu og tilfærslna og veikingu samfélagslega iðnviði. Sú trú að skattalækkanir auki hagvöxt hefur nú almennt vikið fyrir áherslu á arðbærar fjárfestingar, öfluga opinbera þjónustu og sterk tekjutilfærslukerfi til að vinna gegn ójöfnuði.

BSRB hefur ítrekað varað við því að skattar séu lækkaðir án þess að annara tekna sé aflað þeirra í stað og hafnað því að skattalækkanir verði fjármagnaðar með niðurskurði í útgjöldum eða ónógri hækkun tilfærslna til heimila. Í þessu sambandi vill BSRB benda á tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í nýútkominni skýrslu um ríkisfjármál um svokallaðan samstöðuskatt sem lagður verði á ríkustu og tekjuhæstu einstaklingana og þau fyrirtæki sem hagnast hafa vegna heimsfaraldursins.

Samantekt
  • BSRB leggst gegn því að því fordæmalausa efnahagsáfalli sem nú ríður yfir verði mætt með niðurskurði í rekstri hins opinbera á næstu árum.
  • Í ljósi þjóðhagsspár sem gerir ráð fyrir miklu atvinnuleysi næstu árin verður hið opinbera að stuðla að sköpun fleiri starfa og hækka þarf atvinnuleysistryggingar og lengja réttindatímabilið.
  • Starfsfólk í opinberri þjónustu er víða undir miklu álagi vegna heimsfaraldursins og hafði áður en hann hófst verið undir miklu vinnuálagi vegna niðurskurðar og langvarandi aðhalds í kjölfar efnahagshrunsins fyrir rúmum áratug. Þjónustuþörf í heilbrigðis- og félagskerfinu er mikil vegna heimsfaraldursins og áhrifa hans á líkamlega og andlega heilsu almennings. Mikilvægt er að auka fjármagn til opinberrar þjónustu í stað þess að beita niðurskurði eins og fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir.
  • Mikilvægt er að skuldasöfnun hins opinbera verði ekki stöðvuð fyrr en efnahagskerfið hefur náð sér og að fjármálareglur hins opinbera verði endurskoðaðar áður en þær taka aftur gildi til að þær miði að því að tryggja öflugt heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi á Íslandi.
  • Bæta þarf fyrir það 34 ma. kr. árlega tekjutap sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna ótímabundinna skattalækkana ríkisstjórnarinnar með því að afla tekna með öðrum hætti. Núverandi tekjugrunnur er ekki sjálfbær.
  • BSRB leggur áherslu á að fullfjármögnuð opinber þjónusta og viðunandi afkoma fólks eru mikilvægar forsendur þess að hér ríki velsæld og félagslegur stöðugleiki. 

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?