Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017-2021

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017-2021 með áherslu á börn og barnafjölskyldur, þingskjal 1502 - 813. mál

Reykjavík, 14. september 2016

BSRB hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017 – 2021 með áherslu á börn og barnafjölskyldur.

BSRB fagnar því að lögð sé fram opinber fjölskyldustefna með áherslu á börn og barnafjölskyldur. Eitt af helstu áherslumálum BSRB er að hér sé komið á fjölskylduvænu samfélagi sem byggi á jöfnum tækifærum og jafnri stöðu foreldra, sbr. stefnu sem samþykkt var á þingi BSRB í október s.l. til þriggja ára. Enn fremur segir í stefnunni að gera verði fólki kleift að samræma fjölskyldulíf og atvinnu. Samhliða vinnu við að eyða launamun kynjanna verði að jafna stöðu foreldra við uppeldi barna og auka möguleika þeirra til að verja tíma með fjölskyldunni.

Til að svo megi verða telur BSRB nauðsynlegt að lengja fæðingarorlofsrétt foreldra á vinnumarkaði samhliða því sem hámarksgreiðslur eru hækkaðar. Enn fremur að greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði verði óskertar upp að 300.000 kr. en 80% eftir það. Þá þarf að tryggja börnum örugga dagvistun strax að loknu fæðingarorlofi foreldra. Sveigjanlegur og fyrirsjáanlegur vinnutími leikur að mati bandalagsins lykilhlutverki við að byggja upp fjölskylduvænt samfélag og hefur stytting vinnuvikunnar verið eitt helsta baráttumál BSRB um árabil. Það er grundvallarkrafa BSRB og mikilvægur liður í því að búa til fjölskylduvænna samfélag.

BSRB telur nauðsynlegt að taka til skoðunar samspil atvinnulífs, skóla og heimilis með það að leiðarljósi að draga úr árekstrum og álagi á fjölskyldufólk. Fjölskyldufólk þarf að hafa meiri sveigjanleika í starfi til þess að samþætta atvinnu og fjölskyldulíf, t.d. með töku sérstakra frídaga til að koma til móts við vetrarfrí, starfsdaga og lokanir skóla. Samkvæmt stefnu BSRB er mikilvægt að atvinnurekendur axli ábyrgð og stjórnvöld, fulltrúar atvinnulífsins og skóla klári það samtal sem þarf að eiga sér stað til að koma í veg fyrir síendurtekna árekstra vegna vetrarfría, sumarlokana og starfsdaga í skólum. Loks segir í stefnunni að mikilvægt sé að að tryggja launafólki rétt til fjarvista frá vinnu vegna alvarlegra langvarandi veikinda barna án skerðingar á launum.

Í stefnunni sem hér er til umsagnar er því komið inn á marga þætti sem bandalagið hefur lagt áherslu á og styður því samþykkt hennar. BSRB gerir eftirfarandi athugasemdir og tillögur til breytinga á stefnunni.

Varðandi lið E.1. um stuðning vegna umönnunar barna fyrstu æviár leggur bandalagið áherslu á að breytingar á fæðingarorlofskerfinu til samræmis við tillögur starfshóps um mótun tillagana um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála verði gerðar tafarlaust. Miðað við núverandi fyrirkomulag um hámark greiðslna er ljóst að kerfið uppfyllir ekki markmið laga um að tryggja börnum samveru með foreldrum

sínum og jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Um 40% færri feður fullnýta nú rétt sinn til fæðingarorlofs eftir verulegar skerðingar á hámarksgreiðslum eftir hrunið. Hlutfall tryggingargjalds hefur þar að auki verið lækkað til sjóðsins og hámarkið hefur ekki verið hækkað síðan í ársbyrjun 2014. Ljóst er að svigrúm er nú þegar hjá Fæðingarorlofssjóði til að hækka hámarksgreiðslur þrátt fyrir lækkað tryggingargjald. Ástæðan er lægri fæðingartíðni en sögulega hefur hún aldrei mælst lægri en árið 2015. Fyrir árið 2015 var fæðingartíðni 1,8 barn en til að samfélagið geti staðið undir sér þarf hún að vera 2,2. Þá er mikilvægt að lengja fæðingarorlof þannig að stuðningur stjórnvalda við barnafjölskyldur sé í takt við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum ásamt því að það er mikilvægur liður þess að brúa megi umönnunarbilið svonefnda. Fæðingarorlofið er styst hér á landi samanborið við hin Norðurlöndin. BSRB hafnar því alfarið að framkvæmd þessa verkefnis sem fjallað er um í lið E.1. skuli eiga sér stað árið 2017 og gerir kröfu um að hún eigi sér stað tafarlaust. Áhrif núverandi fyrirkomulags tryggja ekki að markmið laganna nái fram að ganga. Kerfið hefur ekki tekið breytingum frá því var komið á árið 2000 en á hinum Norðurlöndunum hafa kerfin þróast frekar í ljósi reynslunnar og stuðningur við foreldra ungra barna aukinn verulega.

Varðandi lið E.2. um réttindi veikra barna til að njóta umönnunar foreldra þá styður bandalagið eindregið að mótaðar verði tillögur til breytinga á núverandi fyrirkomulagi. Hið sama má segja um lið E.3. en BSRB hefur til margra ára barist fyrir styttingu vinnuvikunnar. BSRB telur þó að afmörkunin um að markmiðið taki eingöngu til vinnustunda foreldra ungra barna sé of þröngt. Þrátt fyrir að stefnan leggi áherslu á börn og barnafjölskyldur sýna rannsóknir að álag vegna samþættingar fjölskyldu- og atvinnulífs er bæði vegna barna og aldraðra ættingja. BSRB gerir því tillögu til að markmiðið verði útvíkkað til samræmis þar um.

Í lið E.4 er fjallað um samræmd leyfi í leikskólum og grunnskólum. BSRB telur rétt að unnar verði tillögur að því að auðvelda einstaklingum samspil atvinnulífs, skóla og heimilis með það að leiðarljósi að draga úr árekstrum og álagi á fjölskyldufólk. Taka þurfi til umræðu aukinn sveigjanleika í starfi, t.d. sérstakra frídaga til að koma til móts við vetrarfrí, starfsdaga og lokanir skóla. Enn fremur að tekið verði til endurskoðunar núverandi fyrirkomulag þessara lokana skóla og leikskóla og hvort skipan þeirra geti verið með öðrum hætti þannig að gætt sé að hagsmunum barna, foreldra, launafólks og atvinnurekenda.
BSRB telur því ekki nægilegt að eingöngu verði unnar tillögur sem miða að því að samræma vetrarfrí og starfsdaga milli skólastiga og innan sveitarfélaga.

Fyrir hönd BSRB

 

Sonja Ýr Þorbergsdóttir
lögfræðingur BSRB

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?