Umsögn um tillögu til þingsályktunar um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu, 44. mál

Reykjavík, 9. nóvember 2020

BSRB hefur fengið ofangreinda þingsályktunartillögu til umsagnar. Að mati BSRB er margt jákvætt að finna í tillögunni en þó telur bandalagið skynsamlegt að mótuð verði víðtækari stefna fyrir Ísland þar sem tengdar verði verði saman stefnur í atvinnumálum, nýsköpun og menntamálum; og þar með stefnu í iðnaði og ferðaþjónustu.

Með því móti yrði náð betur utan um þróun atvinnumála með tilliti til þeirra áskorana sem felast í fjórðu iðnbyltingunni, umhverfis- og lýðfræðilegum breytingum, þörf fyrir að skapa þá umgjörð sem nauðsynleg er fyrir blómlega nýsköpun og loks að tengja inn í það markvissa sýn á þróun í menntamálum til næstu ára og áratuga.

Þá telur BSRB mikilvægt að spár um mannaflaþörf í ýmsum atvinnugreinum og fagstéttum næstu ár og áratugi verði efldar, enda geri slíkar spár alla stefnumótun í málaflokkunum markvissari. Hagstofa Íslands hefur nú hafið vinnu við gerð slíkra spáa og BSRB leggur áherslu á að allt ferlið við undirbúning, gerð og eftirfylgni þeirra verði eflt þannig að það nýtist sem best.

Þá bendir bandalagið á að ekki kemur skýrt fram í tillögunni hvert skuli vera hlutverk hins opinbera, en BSRB telur mikilvægt að slíkt komi skýrt fram í stefnumótun af þessu tagi. Hið opinbera hefur miklu hlutverki að gegna í ýmsum þáttum sem snerta umgjörð atvinnulífs, vinnumarkaðar, nýsköpunar og menntamála, auk þess sem slík stefna kemur til með að snerta störf og umgjörð þess fjölmenna hóps launafólks sem starfar hjá hinu opinbera.

Að öðru leyti fagnar bandalagið tillögunni og er reiðubúið til þess að ræða hana enn frekar verði eftir því óskað.

Fyrir hönd BSRB

Karl Sigurðsson
Sérfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?