Viðmiðunarreglur um verkföll


Viðmiðunarreglur BSRB vegna verkfalla bæjarstarfsmannafélaga í leikskólum

Ef ekki er farið eftir þessum viðmiðunarreglum er það túlkað sem verkfallsbrot.

  • Í verkfalli er meginreglan sú að það starfsfólk sem ekki er í verkfalli sinnir sínum venjulegu störfum og á ekki að gera meira en venjulega. Ekki má setja starfsfólk á aukavaktir eða breyta fyrir fram ákveðnum vinnutíma.
  • Ekki á að breyta skipulagi starfsemi í verkfalli. Ekki er heimilt að hafa sama háttinn á og þegar um veikindi er að ræða og starfsfólk er fært til. Þannig er ekki heimilt að færa börn eða starfsfólk á milli deilda.
  • Leikskólastjóri er æðsti stjórnandi á leikskóla og hefur heimild til að ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Aðrir starfsmenn hafa ekki þá heimild.
  • Ef deildarstjóri er í bæjarstarfsmannafélagi BSRB skal sú deild vera lokuð.
  • Starfsfólki leikskóla sem ekki er í verkfalli er óheimilt að taka eigin börn með sér í leikskólann á meðan verkfallið stendur ef barnið fær ekki vistun vegna verkfalls.
  • Ef matráður er í verkfalli mega börn ekki koma með nesti heldur þurfa að fara heim í hádeginu. Leikskólastjóri má ganga í störf matráðs, en ekki annað starfsfólk.

 

Viðmiðunarreglur BSRB vegna verkfalla bæjarstarfsmannafélaga á bæjarskrifstofum

Ef ekki er farið eftir þessum viðmiðunarreglum er það túlkað sem verkfallsbrot.

  • Í verkfalli er meginreglan sú að það starfsfólk sem ekki er í verkfalli sinnir sínum venjulegu störfum og á ekki að gera meira en venjulega. Ekki má setja starfsfólk á aukavakti, breyta fyrir fram ákveðnum vinnutíma eða vinna umfram daglega vinnuskyldu.
  • Ekki á að breyta skipulagi starfsemi í verkfalli, eins og t.d. hefur tíðkast vegna veikinda eða manneklu.
  • Almennt er bæjarstjóri æðsti yfirmaður bæjarskrifstofu og hefur heimild til að ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Aðrir starfsmenn hafa ekki þá heimild. Í einhverjum tilfellum getur annar starfsmaður verið titlaður sem æðsti yfirmaður en það fer þá samkvæmt skipuriti.

Fyrir hönd BSRB,

Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur
Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?