Dregur úr álagi og streitu með styttri vinnuviku

Niðurstöður tilraunaverkefna um styttingu vinnuvikunnar eru jákvæðar segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Niðurstöður úr tilraunaverkefni ríkisins og BSRB um styttingu vinnuvikunnar sýna að verulega dregur úr álagi á starfsfólk og andleg og líkamleg streitueinkenni minnka þegar vinnuvikan er stytt úr 40 stundum í 36. Þetta kom fram í erindi sem Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, flutti á málþingi um styttingu vinnuvikunnar síðastliðinn laugardag.

Tilraunaverkefnið hefur verið í gangi frá árinu 2017 þegar fjórir vinnustaðir styttu vinnutíma starfsmanna úr 40 stundum á viku í 36. Fimmti vinnustaðurinn bættist svo við á árinu 2018. Sambærilegt verkefni hefur verið í gangi hjá Reykjavíkurborg frá árinu 2015 og nær það nú til um fjórðungs starfsmanna borgarinnar.

Niðurstöður rannsóknar sem gerð var eftir að tilraunaverkefnið hjá ríkinu hafði verið í gangi í ár sýnir að einkenni álags minnka hjá starfsfólki, dregið hefur úr kulnun og líðan bæði í vinnunni og heima hefur batnað. Niðurstöðurnar hjá Reykjavíkurborg eru sambærilegar, sagði Sonja Ýr á málþinginu um helgina.

Þannig hefur það álag sem starfsfólkið á tilraunavinnustöðum ríkisins upplifir dregist saman um 15 prósent frá því verkefnið hófst á meðan álagið á vinnustöðum þar sem vinnutíminn er óbreyttur hefur aukist lítillega. Að sama skapi dregur úr andlegum streitueinkennum um 19 prósent á meðan þau aukast um nærri átta prósent á samanburðarvinnustöðunum. Á sama tímabili eykst starfsánægja umtalsvert á meðan heldur dregur úr henni á samanburðarvinnustöðunum og starfsandinn batnar.

Framlegðin meiri

Þrátt fyrir að starfsfólk vinni styttri vinnuviku dregur ekki úr framleiðni nema síður sé. „Það er ekki að sjá, hvorki hjá ríkinu né Reykjavíkurborg, að þetta sé að hafa nein áhrif á afköst fólks,“ sagði Sonja í erindi sínu á málþinginu.

Stjórnendur meta afköstin þannig að þau séu þau sömu eða meiri. Einn þeirra orðaði það þannig: „Afköstin eru meiri vegna þess að vinnutíminn er styttri. Þannig að framlegðin þeirra er meiri á þessum færri klukkutímum.“

Stjórnendur eru almennt ánægðir með breytingarnar. Þær auka sjálfstæði starfsmanna í starfi, stjórn vinnuhraða hefur batnað og starfið verður markvissara. Þá dregur úr árekstrum milli vinnu og einkalífsins þar sem fjölskyldufólk á auðveldara með að láta púsluspilið sem flestir foreldrar kannast við ganga upp.

Sonja vitnaði í einn af þátttakendunum í tilraunaverkefninu sem segir breytinguna stuðla að jafnrétti:

Þetta eykur líkur á að konur geti unnið í staðinn fyrir að vera í einhverju bölvuðu basli að ná öllu saman. Þetta eykur jafnrétti kynjanna finnst mér og bara andlega heilsu, fjölskyldulíf og tengsl við börnin.

Karlkyns þátttakandi í tilraunaverkefninu var sammála þessu:

Ég nýti þennan tíma til að taka til heima, alveg hiklaust ef ég er einn heima, þá tek ég til heima […] þannig að ég er miklu meira í þrifum og þessum almennu heimilisstörfum.

Hægt er að skoða glærur Sonju á málþinginu.

Hér má finna upptöku af málþinginu, erindi Sonju hefst þegar um 45 mínútur eru liðnar af upptökunni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?