Fjölbreyttar tillögur að aðgerðum í menntamálum

BSRB kallar eftir ýmiskonar aðgerðum í menntamálum í kjölfar COVID-19 faraldursins.

BSRB kallar eftir því að aðgerðir stjórnvalda í menntamálum í kjölfar COVID-19 faraldursins verði unnar á heildstæðan hátt með þarfir einstaklingsins og þarfir samfélagsins í fyrirrúmi. Bandalagið hefur sent stjórnvöldum sínar tillögur, þar sem meðal annars er lagt til að unnin verði færnispá, múrar milli skólastiga verði brotnir niður og upplýsingagjöf verði aukin með miðlægum upplýsingavef.

Í tillögum BSRB, sem komið hefur verið til stjórnvalda, er meðal annars lögð áhersla á að vinna verði sett í gang sem fyrst við að gera færnispá fyrir íslenskan vinnumarkað. Gögn verði notuð til að beina atvinnuleitendum í menntaúrræði í greinum þar sem skortur á starfsfólki er fyrirsjáanlegur.

Bandalagið leggur til að gerðar verði breytingar á námi í samfélagslega mikilvægum greinum. Þannig þurfi að tryggja fjármagn fyrir fagháskólanám fyrir sjúkraliða, en framhaldsnám fyrir stéttina hefur legið niðri undanfarin ár. Þá vill BSRB að nám leikskólaliða og stuðningsfulltrúa í skólum verði fært upp á þriðja hæfniþrep líkt og nýlega var gert fyrir nám félagsliða.

Fjallað er um upplýsingagjöf í tillögum BSRB og lagt til að menntamálayfirvöld komi á fót miðlægum upplýsingavef fyrir allt nám á Íslandi. Í dag eru upplýsingar um ýmiskonar nám á mörgum stöðum og því gott tækifæri til að samræma upplýsingar og koma þeim fyrir á einum stað, líkt og gert hefur verið í Danmörku og Noregi.

Í tillögum BSRB er kallað eftir því að hindranir milli skólastiga verði ekki til þess að einstaklingar sem hafa átt í erfiðleikum með að fóta sig í kerfinu lendi í vandræðum. Þá er lögð áhersla á að raunfærnimatið, sem hefur gefist afar vel, verði víkkað út þannig að atvinnuleitendur geti farið í gegnum ferlið sér að kostnaðarlausu.

Í áherslum BSRB er einnig fjallað um jafnrétti til náms, hvort sem er út frá kyni, aldri, þjóðerni eða öðrum þáttum. Gæta verði sérstaklega að viðkvæmum hópum og greina sérstaklega hættu á atvinnumissi og langtímaatvinnuleysi.

Lesa má tillögur BSRB í menntamálum í heild sinni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?