Konur frekar heima þegar skólar skertu þjónustu

Niðurstöður könnunarinnar sýna mikilvægi þess að auka sveigjanleika hjá framlínufólki.

Mun fleiri konur en karlar þurftu að vera heima hjá börnum þegar grunnskólar og leikskólar skertu þjónustu í COVID-19 faraldrinum samkvæmt könnun sem unnin var fyrir BSRB.

Rúmur þriðjungur þeirra sem tóku þátt í könnuninni, um 36 prósent, þurftu að vera heima með barn eða börn vegna skertrar þjónustu grunn- eða leikskóla vegna COVID-19 faraldursins. Konur virðast frekar hafa sinnt þessu hlutverki en karlar, en 42 prósent kvenna svöruðu spurningunni játandi en um 30 prósent karla.

Um 54 prósent þeirra sem þurftu að vera heima vegna skertrar þjónustu skóla gátu unnið heima í samráði við yfirmann. Um 10 prósent hafa nýttu orlofsdaga og tæp 9 prósent tóku launalaust leyfi.

Áberandi munur er á því hvort fólk gat unnið heima eftir bæði tekjum og menntun. Þannig gátu um 18 prósent þeirra sem eru með grunnskólapróf unnið heima en 28 prósent þeirra sem eru með framhaldsskólapróf. Til samanburðar gátu tæplega 72 prósent þeirra sem eru með háskólapróf og framhaldsmenntun unnið heima í þessum aðstæðum.

Munurinn er einnig mikill milli þeirra tekjulægri og þeirra sem hafa hærri tekjur. Um 12 prósent þeirra sem eru með heimilistekjur undir 400 þúsundum á mánuði gátu unnið heima og 13 prósent þeirra sem eru með heimilistekjur á bilinu 400 til 549 þúsund krónur. Til samanburðar gátu tæplega 64 prósent þeirra sem eru með heimilistekjur yfir einni milljón króna á mánuði unnið heima.

 

Grafík - Hefur þú þurft að vera heima vegna skerðingu í skólum?

 

Mikilvægt að auka sveigjanleika

Þessi mismunur eftir tekjum og menntun gæti skýrt hvers vegna fólk með lægri tekjur og minni menntun var mun ólíklegra en aðrir til að hafa verið heima með börnum sínum vegna skerðingar á starfsemi leik- og grunnskóla.

„Þetta sýnir mikilvægi þess að aðgerðir til að auka sveigjanleika á vinnufyrirkomulagi sem kallað er eftir nái til allra,“ segir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB. Þeir hópar sem notið hafi takmarkaðs sveigjanleika í heimsfaraldrinum séu líklegir til að búa við minni sveigjanleika á vinnumarkaði almennt. Oftar en ekki sé um framlínufólk að ræða sem þurfi sárlega á auknum sveigjanleika og styttri vinnutíma að halda.

Þannig höfðu um 22 prósent þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi verið heima með börnum sínum. Tvöfalt fleiri, 44-45 prósent, þeirra sem lokið hafa háskólanámi voru heima með sínum börnum. Tekjulægra fólk með minni menntun hefur þannig frekar þurft að grípa til annarra úrræða vegna skerðinga á starfsemi skóla þar sem það átti þess ekki kost að vinna heimanfrá.

Rannsóknin var unnin af rannsóknarfyrirtækinu Maskínu fyrir BSRB dagana 24. apríl til 4. maí. Markmiðið með rannsókninni var að meta áhrif COVID-19 heimsfaraldursins á líf og störf íslensks launafólks. Þátttakendur voru 1.050 talsins, 18 ára og eldri, allsstaðar að af landinu. Hópurinn sem tók þátt endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.

Fleiri fréttir um niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar og verða birtar á næstu dögum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?