Meirihluti vill tannlækningar til hins opinbera

Afgerandi meirihluti landsmanna vill að starfsemi tannlækna sem sinna börnum sé fyrst og fremst á rekin af hinu opinbera.

Tveir þriðju hlutar landsmanna vilja að starfsemi tannlækna sem sinna börnum sé fyrst og fremst rekin af hinu opinbera. Meira en helmingur vill að sama gildi um tannlækningar fullorðinna. Þetta kemur fram í rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Í rannsókn Rúnars, sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, var meðal annars spurt um rekstrarform í heilbrigðiskerfinu, þar með talið tannlækninga.

Niðurstöðurnar eru afar afgerandi þegar kemur að tannlækningum barna. Alls vilja 66,6% landsmanna að sú starfsemi sé fyrst og fremst rekin af hinu opinbera. Um 24,9% telja að best sé að tannlækningum barna sé sinnt jafnt af einkaaðilum og hinu opinbera, en aðeins 7,5% telja að starfsemin eigi fyrst og fremst að vera rekin af einkaaðilum. Rétt er að geta þess að ekki var spurt um fjármögnun á tannlækningum heldur um hver ætti að reka starfsemina.

Þrátt fyrir að niðurstöðurnar þegar kemur að tannlækningum fullorðinna séu ekki jafn afgerandi er meirihluti landsmanna, um 54,3%, þeirrar skoðunar að slík starfsemi eigi fyrst og fremst að vera rekin af hinu opinbera. Um þriðjungur, 34,1% vill að einkaaðilar og hið opinbera komi jafnt að því að veita þjónustuna. Einungis 11,6% vilja að kerfið sé eins og það er í dag, að tannlækningum fullorðinna sé fyrst og fremst sinnt af einkaaðilum.

Nánar er fjallað um aðrar niðurstöður rannsóknar Rúnars hér.

Fara ekki til tannlæknis vegna kostnaðar

Niðurstöður rannsóknar RúnarsEins og fyrri rannsóknir Rúnars hafa leitt í ljós er algengt að fólk fresti heimsóknum til tannlæknis eða hætti við þær af fjárhagsástæðum. Þetta á sérstaklega við um fólk í lægstu tekjuhópunum og þá sem eru með líkamlega fötlun. Þá er algengara að ungt fólk og þeir sem eru einhleypir fresti heimsóknum til tannlæknis eða sleppi þeim alveg. Nánar var fjallað um þetta á vef BSRB í mars síðastliðnum.

BSRB hefur barist fyrir því að sú mismunun sjúklinga sem viðgengst vegna eðlis og uppruna sjúkdóma þeirra verði leiðrétt. Stefna bandalagsins er að tannlækningar barna falli undir almenna heilbrigðisþjónustu og að sjúklingar með munnhols- og tannsjúkdómar fái læknisþjónustu án þess að greiða sérstaklega fyrir.

Aðferðafræðin

Rannsókn Rúnars byggir á könnun sem gerð var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Rúnar Vilhjálmsson prófessor. Kostnaður við gerð könnunarinnar var greiddur af BSRB. Könnunin var gerð frá 16. mars til 3. maí 2017 og náði til alls 1.733 meðlima í netpanel Félagsvísindastofnunar. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá og er tryggt að dreifing aldurs, kyns, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem gerist meðal landsmanna. Alls svöruðu 1.120 könnuninni og svarhlutfallið því 65%.

Niðurstöður Rúnars


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?