Fólk með lágar tekjur frestar ferðum til tannlæknis

Mikill munur er á því hvort fólk frestar heimsóknum til tannlæknisins eftir tekjum. Það sýnir að fólk neitar sér um þessa nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu af fjárhagsásæðum.

Algengast er að fólk í lægstu tekjuhópunum, sem og þeir sem eru með líkamlega fötlun, fresti ferðum til tannlæknis eða hætti við að fara samkvæmt nýjum niðurstöðum úr rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar prófessors.

Einnig er algengara að ungt fólk og einhleypir fresti heimsókn til tannlæknisins eða sleppi henni alveg, samkvæmt niðurstöðum úr rannsókn Rúnars, sem BSRB styrkti. Fjallað er um rannsókn Rúnars í Morgunblaðinu í dag.

Rannsókn Rúnars leiðir í ljós að um 21,1% fólks á aldrinum 18 til 75 ára hefur sleppt því að fara til tannlæknis eða hætt við að fara. Hlutfallið er mun hærra í lægsta tekjuhópnum. Þar hefur nærri þriðjungur, um 31,4%, frestað eða sleppt heimsókn. Til samanburðar höfðu um 16,6% úr hæsta tekjuhópnum sleppt eða frestað heimsókn til tannlæknis.

Þá vekur athygli að um 35,7% fólks með líkamlega fötlun hafði hætt við heimsókn til tannlæknis eða frestað heimsókn.

Í könnun Rúnars, sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands árið 2015, var spurt: „Þurftir þú að fara til tannlæknis einhverntíman á síðastliðnum sex mánuðum en hættir við eða frestaðir því?“ Svörin voru svo greind nánar eftir félagslegri stöðu þátttakenda.

Neita sér um heilbrigðisþjónustu af fjárhagsástæðum

Skýringarmynd úr Morgunblaðinu

„Þessar niðurstöður segja okkur ýmislegt,“ segir Rúnar í samtali við Morgunblaðið. „Við sjáum að munurinn er mjög mikill eftir því hvaða tekjur fólk er með og það þýðir að fólk neitar sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu af fjárhagsástæðum.“ 

Ísland stendur höllum fæti í samanburði við nágrannaþjóðirnar. Rúnar segir að þar geti skipt máli að hvaða marki tannlæknaþjónusta sé niðurgreidd. Hér á landi sé hún aðeins niðurgreidd fyrir fullorðna sé um fæðingargalla eða alvarleg slys að ræða. Víða á nágrannalöndunum sé tannlæknaþjónusta niðurgreidd að hluta.

Rúnar segir sérstakt áhyggjuefni að ungt fólk á aldrinum 18 til 34 ára fresti frekar heimsóknum til tannlæknis en aðrir. Alls frestar 28,3% prósent fólks á þessu aldursbili heimsóknum til tannlæknis. Til samanburðar frestuðu einungis 10% 67 ára og eldri tannlæknaheimsóknum.

Vestfirðir skera sig úr

Þegar niðurstöður Rúnars eru skoðaðar eftir landshlutum skera Vestfirðir sig úr. Alls höfðu 38,5% þeirra Vestfirðinga sem tóku þátt í könnuninni frestað eða fellt niður heimsókn til tannlæknis. Rúnar segir, í samtali við Morgunblaðið, ekki vita nákvæmar skýringar á því, en skortur á tannlæknum og lélegar samgöngur geti haft áhrif.

Ekki reyndist marktækur munur á frestun tannlæknisþjónustu eftir kynferði, atvinnuþátttöku, menntun eða aldri og fjölda barna. Þeir sem bjuggu við langveiki eða höfðu örorkumat frestuðu einnig í svipuðum mæli og aðrir.

Hægt er að lesa nánar um rannsókn Rúnars í grein Morgunblaðsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?