Mótuðu næstu skref vegna #metoo

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, hélt stutt erindi í upphafi fundar til að koma umræðum af stað.

Fjöldi kvenna kom saman á laugardaginn til að ræða næstu skref #metoo byltingarinnar og móta aðgerðir heildarsamtaka launafólks í innra starfi og áherslum við atvinnurekendur.

Heildarsamtök launafólks ásamt Kvenréttindafélagi Íslands buðu konum sem hafa tekið þátt í umræðum í #metoo hópum til fundar með þjóðfundarsniði til að fá fram þeirra sjónarmið. Á fundinum var ætlunin að móta tillögur að næstu skrefum og aðgerðum stéttarfélaga og heildarsamtaka launafólks vegna #metoo byltingarinnar.

Meðal þess sem rætt var á fundinum var hvað þarf að gera til að breyta menningunni og tryggja öruggt starfsumhverfi. Þar var megináherslan á forvarnir, hvernig stjórnvöld, vinnustaðir og stéttarfélög geti stuðlað að þeim. Þá var einnig fjallað um sérstakar aðgerðir sem gæti þurft að grípa til innan einstakra starfsgreina, sér í lagi þeirra þar sem karlar eru í meirihluta.

Þá var einnig fjallað um hvernig hægt er að tryggja að sanngirni sé gætt þegar kynbundin og kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi á sér stað á vinnustöðum. Þar var meðal annars rætt um farveg fyrir þolendur, hvernig fyrirbyggja má endurtekin brot og viðbrögð gagnvart gerendum.

Að lokum var rætt um þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til til að fylgja eftir #metoo byltingunni. Þar var áherslan á að móta aðgerðaráætlun sem hægt verður að fylgja eftir gagnvart stjórnvöldum, fulltrúum atvinnurekenda og innan stéttarfélaga og heildarsamtaka launafólks.

Unnið úr niðurstöðunum

Miklar og góðar umræður spunnust um þessi atriði. Fjölmargar ábendingar og hugmyndir komu fram í umræðum og verður nú tekið til við að vinna úr þeim.

Að fundinum stóðu, auk BSRB, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, hélt stutt erindi við upphaf fundar um réttindi launafólks á vinnustöðum. Hægt er að skoða glærur frá erindi Sonju hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?