Fæst sveitarfélög tryggja leikskólapláss fyrir 12 mánaða börn

Fæst sveitarfélög tryggja börnum leikskólapláss þegar þau verða 12 mánaða, þ.e. eftir að hefðbundnu fæðingarorlofi lýkur. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu BSRB - heildarsamtaka stéttarfélaga starfsfólks í almannaþjónustu sem ætlað er að varpa ljósi á stöðu leikskólavistunar ungra barna á Íslandi og atvinnuþátttöku foreldra. Börn á Íslandi eru að meðaltali 17,5 mánaða gömul þegar þau komast inn á leikskóla samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar en mikill munur er milli sveitarfélaga. Er þetta nokkur breyting til hins betra frá árinu 2017, þegar meðalaldur var 20 mánuðir.*

Lestu skýrsluna hér eða með því að ýta á forsíðumyndina hér til hægri.

Þrátt fyrir að mikill sigur hafi unnist þegar fæðingarorlof var lengt í 12 mánuði árið 2021 er staðan sú að umönnunarbilið svokallaða, þ.e. bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla er enn of langt í flestum tilfellum. Núverandi skipan leikskólamála takmarkar möguleika foreldra til þátttöku á vinnumarkaði að loknu fæðingarorlofi. Ekki hefur verið gripið til neinna aðgerða af hálfu ríkisvaldsins til þess að öllum börnum verði tryggð leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi foreldra, og er því staða barna og foreldra afar misjöfn eftir búsetu. Mörg sveitarfélög hafa þó sett sér skýr markmið, gripið til aðgerða og minnkað umönnunarbilið umtalsvert frá árinu 2017, sem er jákvætt.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga hvetur BSRB öll framboð til að brúa bilið með því að setja í forgang rétt barna til leikskólapláss strax að loknu fæðingarorlofi foreldra. Auk þess kallar bandalagið eftir því að sá réttur verði lögfestur á Alþingi hið fyrsta með tilheyrandi fjármögnun. Og þannig veita barnafjölskyldum hér á landi sambærilegan stuðning og á hinum Norðurlöndunum.

“Umönnunarbilið hefur neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna þar sem konur eru líklegri til að minnka við sig vinnu en karlar eða lengja fæðingarorlof. Bilið veldur ungum barnafjölskyldum um allt land miklum vandræðum og oft tekjumissi þar sem margar hverjar þurfa að hagræða vinnu í marga mánuði, greiða mun hærri gjöld fyrir þjónustu dagforeldra ef sú þjónusta er á annað borð fyrir hendi eða treysta á ættingja til að annast barnið áður en að þau fá pláss á leikskóla í sínu sveitarfélagi. Við hjá BSRB gerum þá kröfu að ríki og sveitarfélög grípi til aðgerða til að öllum börnum verði tryggð leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi foreldra sama hvar þau búa á landinu.” - segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

*Niðurstöður BSRB byggja á gögnum frá Hagstofu Íslands og niðurstöðum könnunar sem samtökin lögðu fyrir sveitarfélög með rafrænum hætti í febrúar 2022.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?