Stofnanir hlúi að starfsfólki sínu

Það er allra hagur að starfsmenn hafi þann sveigjanleika sem þarf til að samræma vinnu og fjölskyldulíf.

Mikilvægt er að stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga marki skýra mannauðsstefnu þar sem hagsmunir stafsmanna og stofnunarinnar eða fyrirtækisins fara saman. Horfa verður til þess hlutverks starfsfólks í almannaþjónustu að veita mikilvæga og lögbundna þjónustu með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Fjallað er um starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu í stefnu BSRB, sem samþykkt var á þingi bandalagsins haustið 2015. Þar segir meðal annars að tryggja þurfi samhæfingu í þjónustunni og að bæði vinnustaðirnir í heild og störf einstakra starfsmanna fái að þróast í samhengi við samfélagið.

Eitt af því sem huga verður að er starfsumhverfi opinberra starfsmanna, enda mikilvægt að það sé sem best svo starfsmennirnir geti tryggt öfluga og góða almannaþjónustu. Hluti af því er að starfsmenn hafi svigrúm til að þróast í starfi með því að sækja sér viðbótarmenntun eða sinna símenntun. Þá er mikilvægt að starfsmennirnir hafi eitthvað um það hvernig vinnustaðirnir eru skipulagðir og hvernig þeir þróast.

Það er bæði hagur starfsmannanna og þeirra stofnana og fyrirtækja sem þeir vinna hjá að sveigjanleiki sé hafður að leiðarljósi þannig að starfsmönnunum sé gert auðveldara að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Það getur haft mikið að segja við að koma í veg fyrir aukið álag og streitu og unnið gegn kulnun í starfi.

Lestu meira um stefnu BSRB um starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?