Starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu

Hlutverk starfsfólks í almannaþjónustu er að veita mikilvæga og lögbundna þjónustu þar sem hagsmunir almennings eru hafðir að leiðarljósi. Tryggja þarf samhæfingu í þjónustunni og að vinnustaðir og störfin þróist í samhengi við samfélagið og þróun þekkingar.

Rannsóknir sýna að starfsfólk í velferðarþjónustu upplifir verri líkamlega og andlega heilsu og minni starfsánægju samanborið við aðrar starfsstéttir. Enn fremur hefur slysatíðnin verið hæst í opinberri þjónustu og einkum hjá lögreglu. Ítrekað hefur verið bent á að ein besta leiðin til að fyrirbyggja þetta er að vinna gegn óhóflegu álagi í vinnu, bæta mönnun og stuðningvið stjórnendur og þjálfun þeirra.

Til að tryggja öfluga og góða almannaþjónustu er mikilvægt að starfsmenn búi alltaf við besta mögulega starfsumhverfi, þar sem öryggi, þekking, gagnkvæm virðing, samskipti, fagmennska og góð heilsa er höfð að leiðarljósi. Skapa skal svigrúm og tækifæri fyrir starfsmenn til að þróa hæfni sína og þekkingu með öflugri símenntun og búa þeim vinnuaðstæður sem gera þeim kleift að sinna starfi sínu á faglegan og vandaðan hátt. Í starfsþjálfun skulu starfsmenn vera á launum.

BSRB leggur áherslu á stjórnvöld marki sér skýra stefnu um skipulag vinnu, samskipti, vinnutíma og starfsumhverfi með það að markmiði að tryggja andlegt og líkamlegt heilbrigði starfsfólks. Þar verði lögð megináhersla á hvernig megi fyrirbyggja óheilbrigt vinnuálag og óheilbrigð samskipti og hegðun. Enn fremur hvernig verði tryggt að stjórnendur hafi þekkingu og hæfni til að vinna að þessum markmiðum.

BSRB vill að reglulega verð gerð heildarúttekt með áhættumati á starfsháttum vinnustaða og aðbúnaði launafólks og eftirfylgni með matinu tryggð. Nauðsynlegt er að mæta þeirri mönnunarþörf sem skapast hefur eftir innleiðingu betri vinnutíma þar sem álag á einstaka stöðum hefur aukist úr hófi fram.

Sveigjanleiki og samhæfing vinnu og einkalífs á ávallt að vera í fyrirrúmi til að stuðla að fjölskylduvænna samfélagi og koma í veg fyrir álag og streitu. Rannsóknir sýna fram á að eftir því sem fólki gengur betur að samþætta fjölskyldulífið og vinnuna því betri er andlega og líkamlega heilsa. Hins vegar sýnir reynslan að hætt er við að aukinn sveigjanleiki hafi í för með sér að mörkin milli vinnu og heimilis verði sífellt óskýrari. Bregðast þarf við því með skýrum rétti til að aftengjast og samið verði um réttindi og aðbúnað starfsfólks við fjarvinnu í kjarasamningum.

Stytting vinnuvikunnar

Stytting vinnuvikunnar er grundvallarkrafa BSRB og mikilvægur liður í því að búa til fjölskylduvænna samfélag sem grundvallast á samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Lögfesta þarf í kjarasamningum styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir í dagvinnu og að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks án launaskerðingar.

Styttri vinnuvika leiðir til betri starfsánægju og aukinna afkasta, minni streitu vegna samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs, bættrar heilsu og aukinnar vellíðunar. Hún stuðlar einnig að auknu jafnræði í ábyrgð á heimilis- og umönnunarstörfum, aukningu á atvinnuþátttöku kvenna og að konur leiti síður í hlutastörf vegna fjölskylduábyrgðar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?