Starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu

Hlutverk starfsfólks í almannaþjónustu er að veita mikilvæga og lögbundna þjónustu þar sem hagsmunir almennings eru hafðir að leiðarljósi. Tryggja þarf samhæfingu í þjónustunni og að vinnustaðir og störfin þróist í samhengi við samfélagið.

Til að tryggja öfluga og góða almannaþjónustu er mikilvægt að starfsmenn búi alltaf við besta mögulega starfsumhverfi, þar sem þekking, fagmennska og starfsánægja er höfð að leiðarljósi. Skapa þarf svigrúm og tækifæri fyrir starfsmenn til að þróa hæfni sína og þekkingu með öflugri símenntun og búa þeim vinnuaðstæður sem gera þeim kleift að sinna starfi sínu á faglegan og vandaðan hátt.

Mikilvægt er að marka skýra mannauðsstefnu þar sem saman fara hagsmunir starfsmanna og stofnunar eða fyrirtækis. Styrkja þarf gott samband milli stjórnenda og starfsmanna m.a. með reglulegum starfsmannasamtölum og mikilvægt er að tryggja aðkomu starfsmanna að skipulagi og þróun vinnustaðarins.

Sveigjanleiki og samhæfing vinnu og einkalífs ætti ávallt að vera í fyrirrúmi til að stuðla að fjölskylduvænna samfélagi og til að koma í veg fyrir álag og streitu.

Allar breytingar sem varða stöðu starfsfólks í almannaþjónustu, svo sem breytingar á stofnanaumhverfi, verður að vinna með faglegum hætti og í samráði við starfsmenn og stéttarfélög. Þannig er hægt að tryggja nauðsynlega sátt sem og að þekking, reynsla og hæfni starfsfólks glatist ekki.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?