Stytting vinnuviku minnkar ekki afköst starfsfólks

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, flutti erindi á ráðstefnunni Forskot til framtíðar í dag.

Stytting vinnuvikunnar hefur dregið úr álagi í starfi, aukið starfsánægju og bætt starfsanda á vinnustöðum án þess að dregið hafi úr afköstum, sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í erindi sínu á ráðstefnunni Forskot til framtíðar, sem fram fór á Hilton hótel Nordica í dag.

Í erindi sínu fjallaði Sonja um vinnuumhverfi framtíðarinnar og hvernig stytting vinnuvikunnar er hluti af þeirri framtíð. Hún lýsti tilraunaverkefnum sem BSRB hefur staðið fyrir ásamt Reykjavíkurborg og ríkinu og sagði tíma kominn á næsta skref.

Aðspurð sagðist Sonja telja víst að samið verði um styttingu vinnunnar í komandi kjarasamningum. Kjarasamningar eru lausir á almenna vinnumarkaðnum um áramót, en samningar flestra aðildarfélaga BSRB renna út í lok mars 2019.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttisráðherra, ávarpaði ráðstefnuna og fjallaði sérstaklega um góðan árangurs tilraunaverkefnisins um styttingu vinnuvikunnar. Sagði ráðherrann áhrifin jákvæð, bæði á starfsanda og vellíðan starfsmanna án þess að styttri vinnutími bitnaði á þjónustu eða afköstum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?