Stytting vinnuvikunnar haft góð áhrif hjá borginni

Almennt hefur dregið úr einkennum álags og starfsánægja aukist á þeim stöðum þar sem vinnuvikan var stytt.

Árangurinn af tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar er almennt jákvæður. Styttingin hefur haft góð áhrif á starfsfólk án þess að bitna á afköstum. Þetta kemur fram í skýrslu stýrihóps þar sem fjallað er um áhrif styttingar vinnuvikunnar á árunum 2015-2017.

Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal starfsmanna bendi til jákvæðra áhrifa af styttingu vinnuvikunnar þó þau birtist með ólíkum hætti eftir starfsstöðvum. Mælingar sýna að dregið hefur úr andlegum og líkamlegum einkennum álags auk þess sem starfsánægja jókst á öllum starfsstöðum utan við einn. Áhrif styttingarinnar voru jákvæðari en væntingar stóðu til í upphafi verkefnisins.

Niðurstöður úttektar á tilraunaverkefninu sýna einnig að ekki dró úr hreyfingum í málaskrám hjá vinnustöðum. Afköstin héldust því óbreytt þó vinnutíminn styttist. Verulega dró úr skammtímaveikindum á öllum vinnustöðunum í upphafi en á tveimur þeirra jukust þær aftur síðar á tímabilinu. Lesa má lokaskýrslu tilraunaverkefnisins hér.

Þrátt fyrir að um sé að ræða lokaskýrslu tilraunaverkefnisins heldur stytting vinnuvikunnar áfram hjá Reykjavíkurborg. Öllum starfsstöðum borgarinnar var gert kleift að sækja um þátttöku í nýju tilraunaverkefni og taka nú um 100 starfsstaðir með um 2.200 starfsmönnum þátt, eins og fram kemur í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Stytta vinnuvikuna á Akranesi

Fulltrúar borgarinnar kynntu bæjarráði Akraneskaupstaðar tilraunaverkefnið á fundi nýverið, eins og fjallað var um í Kveik, fréttaskýringarþætti RÚV, nýverið.

Í kjölfar kynningarinnar hefur Akraneskaupstaður ákveðið að stíga fyrsta skrefið í átt að styttingu vinnuvikunnar með því að stofna starfshóp sem móta á tillögur um sambærilega framkvæmd og Reykjavíkurborg vinnur að.

Smelltu hér til að kynna þér baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?