Stytting vinnuvikunnar haft jákvæð áhrif

Fjallað var um styttingu vinnuvikunnar á 45. þingi BSRB.

Stytting vinnuvikunnar hefur almennt haft jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan starfsmanna, gert starf á vinnustöðum markvissara og dregið úr veikindum. Þetta kom fram í erindi Arnars Þórs Jóhannessonar, sérfræðings hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, á 45. þingi BSRB í morgun.

Arnar fjallaði um niðurstöður rannsóknar sem unnin hefur verið á áhrifum tilraunaverkefna Reykjavíkurborgar og ríkisins um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar, sem unnin hafa verið í samstarfi við BSRB.

Í skýrslu sem unnin var fyrir BSRB og Reykjavíkurborg kemur fram að bæði karlar og konur tali um að stytting vinnuvikunnar hafi auðveldað þeim að samræma vinnu og einkalíf og minnkað það álag sem er á heimilinu. Karlarnir töldu sig taka meiri þátt og axla meiri ábyrgð á heimilisstörfum en hún var svipuð hjá konum. Vistunartími barna styttist og gæðastundir með fjölskyldu jukust. Þar er ennfremur dregið fram að samskipti við bæði vinnufélaga og fjölskyldu eru betri og létt hefur á heimilunum eftir að vinnuvikan var stytt.

Ekki er síður áhugavert að þátttakendur í tilraunaverkefnunum upplifðu almennt bætta líkamlega og andlega heilsu og meiri orku, sem nýtist bæði í vinnu og utan hennar. Þá eykst starfsánægja.

Arnar sagði fólk nota þann tíma sem það fær með styttingu vinnuvikunnar á mismunandi hátt en flestir þátttakendur telji að miklu muni um styttinguna. Margir nefndu að þeir hefðu meiri tíma fyrir börnin, tómstundir, félagslíf, halda tengslum við foreldra og ættingja, sjálfsrækt og þrif.

Auk Arnars sögðu tveir starfsmenn sem starfa á vinnustöðum sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefnunum frá sinni upplifun af styttri vinnuviku. Fyrst sagði Arna Hrönn Aradóttir, verkefnastjóri Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, frá sinni reynslu en svo tók Aðalheiður Sigursveinsdóttir, mannauðsstjóri Þjóðskrár, við og sagði frá því hvernig hefur gengið að innleiða tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá stofnuninni.

Stytting vinnuvikunnar - Áhrif tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg og völdum ríkisstofnunum á fjölskyldulíf og jafnrétti
kynjanna

Hægt er að nálgast glærur frá umfjöllun um styttingu vinnuvikunnar á þingi BSRB hér að neðan.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?