Styttri vinnuvika hjá ríki og sveitarfélögum á nýju ári

Reynsla Fangelsismálastofnunar, leikskóla í Reykjavík, Skógræktarinnar og Jafnréttisstofu getur nýst vinnustöðum sem enn eiga eftir að ljúka útfærslu á styttingu vinnuvikunnar.

Umbótasamtölum á vinnustöðum hjá ríki og sveitarfélögum er nú víða lokið eða við það að ljúka, enda á stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki að taka gildi frá og með 1. janúar næstkomandi samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga BSRB.

Útfæra þarf styttinguna á hverjum vinnustað fyrir sig með tilheyrandi umbótasamtali og mögulega breytingum á vinnufyrirkomulagi. Það hefur auðvitað gengið misjafnlega vel, eins og búast mátti við, en hjá stórum hluta vinnustaða er ýmist búið að stytta vinnuvikuna niður í 36 stundir eða styttingin á lokametrunum.

Þeir sem standa í stórræðum á sínum vinnustað við að ákveða hvernig á að stytta vinnuvikuna, hvort breyta þarf verklagi eða öðrum grundvallarþáttum geta lært heilmikið af þeim sem þegar hafa fetað þennan stíg. Fjölmargir vinnustaðir með mjög ólíka starfsemi hafa þegar lokið ferlinu og gott að kynna sér hvernig til tókst hjá þeim.


Þvílíkur lúxus að stytta vinnuvikuna

Egill Kristján Björnsson„Það eru allir mjög ánægðir með þetta og við sem erum byrjuð að stytta vinnuvikuna getum ekki annað en lofað þetta í hástert. Þetta eru þvílík lífsgæði sem við erum að fá,“ segir Egill Kristján Björnsson, trúnaðarmaður Sameykis hjá Fangelsismálastofnun ríkisins á Hólmsheiði.

Fangelsismálastofnun er einn þeirra fyrirmyndarvinnustaða sem þegar hafa innleitt styttingu vinnuvikunnar hjá sínu starfsfólki sem vinnur dagvinnu. Vinnuvika starfsfólksins styttist úr 40 stundum í 36.

Egill segir samstarfsfólk sitt nota aukinn frítíma með mismunandi hætti. „Margir fara að stússast fyrir heimilið, þrífa, versla eða annað í þeim dúr. Ég sé fyrir mér að nota þennan tíma fyrir mig. Fara á skíði, þegar snjórinn kemur, og sinna sjálfum mér aðeins. Þetta er auðvitað þvílíkur lúxus.“

Lestu meira um styttinguna hjá Fangelsismálastofnun hér.


Starfsfólkið hleypur ekki hraðar

Björg BjörnsdóttirKóvid-faraldurinn getur haft áhrif á innleiðingu styttingu vinnuvikunnar en hjá Skógræktinni lét starfsfólkið lét faraldurinn ekki stoppa sig í því að vinna þetta verkefni vel og stytta vinnuvikuna í 36 stundir.

Skógræktin fylgdi vel þeim verkferlum sem lagt er upp með, til dæmis á vefnum betrivinnutimi.is. Fyrsta skrefið var að stofna vinnutímanefnd sem greindi starfsemi stofnunarinnar og í kjölfarið efnt til starfsmannafundar, segir Björg Björnsdóttir, mannauðsstjóri Skógræktarinnar. Fundurinn, eins og aðrir fundir í þessu ferli, fór fram í gegnum fjarfundabúnað vegna heimsfaraldursins.

„Í þessu umbótasamtali lögðum við mikla áherslu á að við viljum ekki að starfsfólkið okkar sé að hlaupa hraðar heldur viljum við hjálpa okkar fólki að nýta tímann í vinnunni betur,“ segir Björg.

Lestu meira um styttinguna hjá Skógræktinni hér.


Leikskólar stytta í 36 stundir

Særún Ármannsdóttir„Við á leikskólanum Hofi tókum þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá borginni og vissum því vel hvað við vorum að fara út í þegar kom að því að stytta vinnuvikuna nú í haust,“ segir Særún Ármannsdóttir, leikskólastjóri í leikskólanum Hofi í Reykjavík.

Auk þess að hafa innleitt styttinguna á eigin leikskóla hefur Særún, ásamt öðrum reynslumiklum leikskólastjórum, aðstoðað stjórnendur á öðrum leikskólum borgarinnar og víðar um land við að innleiða styttingu vinnuvikunnar. Niðurstaðan er sú að lang flestir leikskólar borgarinnar eru langt komnir í umbótasamtali og ætla að stytta vinnuvikuna í 36 stundir.

„Auðvitað vonast ég svo til þess að þegar vinnudagurinn styttist hjá fleiri hópum þá fari vinnudagur skólabarnanna okkar að styttast líka. Vonandi geta þá fleiri foreldrar sótt börnin sín fyrr og nýtt styttingu vinnuvikunnar til meiri samvista við börnin,“ segir Særún.

Lestu meira um styttinguna á leikskólum í Reykjavík hér.


Sjá allir kostina við að stytta vinnuvikuna

Katrín Björg Ríkarðsdóttir„Þetta ferli gekk í rauninni ótrúlega vel, en samt er alltaf áhugavert þegar starfsfólk tekur samtalið og fer að vega og meta hvernig best er að vinna úr þessu,“ segir Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. Eftir ítarlegt undirbúningsferli er stytting vinnuvikunnar að komast til framkvæmda á vinnustaðnum um þessar mundir.

Undirbúningsvinna fyrir styttingu vinnuvikunnar hjá Jafnréttisstofu hófst í apríl, stuttu eftir að samið var um styttingu í kjarasamningum, og lauk verkefninu í ágúst. Katrín segir að fjallað hafi verið um styttinguna á þremur starfsmannafundum og að á þeim hafi öllum möguleikum verið velt upp. Rætt hafi verið um bæði lágmarks- og hámarks styttingu, auk þess sem starfsfólk hafi rætt hver áhrifin af styttingu verði á þann sveigjanleika sem þegar hafi verið til staðar. Í byrjun sumars var svo send vefkönnun á starfsfólk þar sem spurt var út í ákveðin atriði á borð við útfærslu á hádegishléi, hvernig það myndi helst vilja útfæra styttinguna og hverju þyrfti að breyta á vinnustaðnum til að hægt væri að koma við styttingu.

„Það sjá allir kostina við styttingu vinnuvikunnar. Þó við séum að leggja upp með að fólk taki út styttinguna innan hverrar vinnuviku er spennandi að sjá hvernig fólk ætlar að nýta þetta,“ segir Katrín. „Það er nú það flotta í þessu að það eru möguleikar fyrir starfsfólkið að taka styttinguna á þeim tíma sem nýtist best.“

Lestu meira um styttinguna á Jafnréttisstofu hér.


Styttri vinnuvika vaktavinnufólks í maí 2021

Innleiðingin á styttingu vinnuvikunnar heldur áfram á dagvinnustöðum en ferlinu á að vera lokið um áramót, þegar styttingin á að taka gildi. Á vaktavinnustöðum þarf öðruvísi undirbúning en þar á innleiðinguni að vera lokið 1. maí 2021.

Hægt er að kynna sér allt um styttinguna á vefnum styttri.is og á betrivinnutimi.is.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?