Þingmenn hafni lækkun á fjármagnstekjuskatti

Ríkissjóður mun verða af 1,5 til 1,8 milljörðum króna vegna fyrirhugaðrar hækkunar á frítekjumarki fjármagnstekna.

BSRB leggst alfarið gegn því að frítekjumark á fjármagnstekjum verði tvöfaldað og undanþágur nái til arðs og söluhagnaðar af verð- og hlutabréfum og hvetur þingmenn til að hafna frumvarpi fjármálaráðherra.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að frítekjumark fjármagnstekna fari úr 150 þúsund krónum í 300 þúsund krónur og undanþágur verði víkkaðar út, eins og fram kemur í umsögn BSRB um frumvarpið.

„BSRB ítrekar varnaðarorð sín um ósjálfbæran rekstur ríkissjóðs vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um skattlækkanir af ýmsum toga á kjörtímabilinu, að frátöldum þeim tímabundnu aðgerðum sem tengjast viðbrögðum við heimsfaraldrinum,“ segir í umsögn bandalagsins. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nema ótímabundnar skattalækkanir um 34 milljörðum króna árlega og munu tekjur ríkissjóðs lækka um sem nemur 1,5 til 1,8 milljörðum króna verði frumvarp þetta að lögum óbreytt. „Á sama tíma sæta mikilvægir málaflokkar aðhaldsmarkmiðum þrátt fyrir langvarandi vanfjármögnun og umframálag vegna faraldursins,“ segir í umsögninni.

„BSRB leggst alfarið gegn því að svo veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi fjármagnstekjuskatts verði samþykktar á hraðferð í miðjum heimsfaraldri og alvarlegum efnahagssamdrætti sem hefur leitt til gríðarlegs tekjufalls hjá ríkissjóði og sveitarfélögum,“ segir í umsögninni. „Þær ívilnanir sem felast í frumvarpinu lýsa skilningsleysi á þeim alvarlega vanda sem ríkisvaldið og heimili landsins standa frammi fyrir. BSRB leggur ríka áherslu á að skattkerfið sé nýtt sem jöfnunartæki. Stærsta verkefni fjárveitingarvaldsins nú, að mati bandalagsins, er að tryggja afkomu fólks og fjármögnun mikilvægrar þjónustu sem og að skapa atvinnutækifæri.

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (fjármagnstekjuskattur), 374. mál.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?