Umönnunarbil veldur óvissu og erfiðleikum

Sveitarfélögum er ekki skylt að tryggja dagvistun við hæfi fyrir börn að loknu fæðingarorlofi.

Foreldrar upplifa mikla óvissu og erfiðleika eftir að fæðingarorlofi líkur þar til börn þeirra komast inn á leikskóla. Það lendir mun frekar á mæðrum að brúa þetta umönnunarbil og eru þær að jafnaði fjórum til fimm sinnum lengri tíma frá vinnu en feðurnir.

Fjallað var um málið í Speglinum í Ríkisútvarpinu fyrir helgi. Þar var vitnað í nýlega skýrslu BSRB um umönnunarbilið þar sem kemur fram að börn á höfuðborgarsvæðinu komast að jafnaði ekki inn á leikskóla fyrr en við 22 mánaða aldur en börn á landsbyggðinni um 18 mánaða gömul. Fæðingarorlof beggja foreldra er samtals 9 mánuðir.

„Það sem við erum að horfa til er að við erum alltaf í þessum samanburði við hin Norðurlöndin og vitum að þar er samfella í kerfinu þannig að frá fæðingu tekur við fæðingarorlof og eftir það er tryggt dagvistunarúrræði. Hér á landi erum við með níu mánaða orlof, svo tekur við þriggja til sex mánaða umönnunarbil þar sem er ekki tryggt dagvistarúrræði fyrir hendi og það er aðalvandinn sem við sjáum. Þetta hvílir aðallega á mæðrum og þær eru fjórfalt til fimmfalt lengur frá vinnumarkaði heldur en feðurnir,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, í viðtali við Spegilinn.

Þetta grefur undan stöðu kvenna á vinnumarkaði og vinnur gegn þeim jafnréttissjónarmiðum sem lágu að baki þeirri ákvörðun að feður gætu farið í fæðingarorlof rétt eins og mæður.

BSRB telur nauðsynlegt að eyða umönnunarbilinu með því að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og tryggja að börn komist inn á leikskóla 12 mánaða gömul.

Á biðlista hjá fjölda dagforeldra

Í Speglinum var rætt við nokkra foreldra um vandann við að brúa umönnunarbilið. „Ég var með dóttur okkar á biðlista í fjórum póstnúmerum hjá örugglega fjörutíu dagforeldrum. Maður veit ekkert hvar maður er staddur og af því þetta er svo ógagnsætt eru þetta svo miklar geðþóttaákvarðanir hjá dagmömmum, svo kemur frænka og hún fær plássið eða dóttir vinkonunnar eða eitthvað,“ sagði Ólöf Jakobsdóttir.

„Við til dæmis áttum pláss á einkareknum leikskóla og fengum svo bara símhringingu um að við fengjum það ekki því það hefðu fæðst svo mörg börn í hverfinu og hún ætlaði frekar að taka þau inn. Maður er svo varnarlaust, hefur ekkert í höndunum, verður bara að segja já ókei. Svo verður maður að passa að síminn sé hlaðinn og kveikt á hljóðinu til að taka við símtalinu um að maður sé kominn með dagmömmu og ef hún er í klukkutíma frá heimili þínu verðu þú samt að segja já því þú hefur ekki val,“ sagði hún í viðtalinu við Spegilinn.

Hægt er að nálgast skýrslu BSRB um umönnunarbilið hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?