Undanþágunefndir vegna verkfalla taka til starfa

Stjórnvöld hafa óskað eftir því að undanþágunefndir taki tillit til hættuástands vegna COVID-19 faraldursins og verður að sjálfsögðu orðið við því.

Undanþágunefndir aðildarfélaga BSRB sem boðað hafa til verkfallsaðgerða gagnvart ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hafa nú opnað fyrir umsóknir um undanþágur. Boðuð verkföll munu hefjast mánudaginn 9. mars næstkomandi, náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Stjórnvöld hafa óskað eftir því að umsóknir um undanþágur vegna COVID-19 verði afgreiddar hratt og vel og munu undanþágunefndir að sjálfsögðu taka tillit til þeirra óska og gæta þess í hvívetna að boðað verkfall stefni ekki heilsu fólks í hættu.

Opinberar stofnanir og sveitarfélögin í landinu senda ár hvert undanþágulista á stéttarfélög til samþykktar svo hópur fólks er þegar á undanþágu og mun vinna í verkfallinu. Ef í ljós kemur að einhverjar stöður vantar á listann geta stjórnendur á vinnustöðum sent undanþágubeiðni.

Umsóknir um undanþágu skal senda viðkomandi undanþágunefnd rafrænt. Ein undanþágunefnd er gagnvart öllum aðildarfélögum sem boðað hafa verkfall hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sameyki er með undanþágunefnd gagnvart Reykjavíkurborg og aðra gagnvart ríkinu. Önnur aðildarfélög sem boðað hafa verkfall hjá ríkinu eru með sameiginlega undanþágunefnd.

Hér má finna eyðublöð vegna undanþágubeiðna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?