Aðalfundur BSRB fordæmir uppsagnir

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, kynnti skýrslu stjórnar bandalagsins á aðalfundinum í morgun.

Aðalfundur BSRB átaldi Isavia, heilbrigðisstofnanir og einstök sveitarfélög fyrir uppsagnir á félagsmönnum aðildarfélaga bandalagsins. Á fundinum, sem haldinn var í morgun, var einnig skorað á samninganefnd ríkisins að ganga þegar í stað til samninga við lögreglumenn, sem hafa nú verið án kjarasamnings í 14 mánuði.

Aðalfundurinn var haldinn í gegnum fjarfundarbúnað vegna kórónaveirufaraldursins og setti það vitanlega sitt mark á fundinn. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, fór yfir skýrslu stjórnar fyrir síðastliðið ár og framkvæmdaáætlun næsta árs. Þá fór Sólveig Jónasdóttir, fjármálastjóri BSRB, yfir ársreikninga og fjárhagsáætlanir.

Fundurinn samþykkti þrjár ályktanir. Í ályktun fundarins um uppsagnir flugumferðarstjóra er þeirri ákvörðun Isavia ANS um að segja um 100 flugumferðarstjórum upp störfum mótmælt harðlega.

„Ríkur skilningur er á þörf félagsins til að hagræða í rekstri en það er óskiljanlegt að slíkar ákvarðanir séu teknar án þess að haft sé raunverulegt samráð við Félag íslenskra flugumferðarstjóra. Félagið hefur lagt fram tillögur til að mæta vandanum sem byggja á samstöðu og sátt allra flugumferðarstjóra. Isavia ANS hefur hunsað þær tillögur og þess í stað valið leið sem brýtur í bága við kjarasamning,“ segir meðal annars í ályktuninni.

„Aðalfundur BSRB skorar á Isavia ANS að draga uppsagnirnar tafarlaust til baka og beita lögmætum og sanngjörnum aðferðum í sátt við starfsfólk sitt til að mæta þeim tímabundnu áskorunum sem félagið stendur frammi fyrir. Það er mikilvægt til framtíðar fyrir fyrirtæki sem keppir um hæft starfsfólk á alþjóðamarkaði að viðhalda starfsánægju og tryggð starfsmanna,“ segir þar ennfremur.

Uppsögnum lægst launaða starfsfólksins mótmælt

Í ályktun fundarins um uppsagnir í hagræðingarskyni er því harðlega mótmælt að opinberar stofnanir og sveitarfélög segi upp lægst launaðasta starfsfólkinu í hagræðingarskyni, eins og dæmi eru um hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Seltjarnarnesbæ og Hveragerði.

„Þjónustan sem starfsmennirnir veita nú í ræstingum og mötuneyti mun ekki vera lögð af heldur verður henni framvegis útvistað til einkaaðila. Verkefnin eru því ekki að hverfa heldur er verið að færa þau til annarra á tímum þar sem álag á starfsfólk hefur stóraukist vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar,“ segir meðal annars í ályktuninni.

„Aðalfundur BSRB skorar á ríki og sveitarfélög að falla frá áformum um uppsagnir á tímum þegar stærsta áskorunin sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir er atvinnuleysi sem er nú í sögulegu hámarki. Reynslan sýnir að ef á annað borð næst sparnaður með slíkum aðgerðum er hann til skamms tíma. Afleiðingarnar eru verri þjónusta, verri kjör lægst launuðu starfsmannanna og aukið álag,“ segir þar ennfremur.

Lögreglumenn án samnings í 14 mánuði

Aðalfundurinn fordæmdi einnig í ályktun þann drátt sem orðið hefur á því að ríkið gangi til kjarasamninga við Landssambands lögreglumanna, en félagið hefur verið án kjarasamnings í 14 mánuði.

„Kröfur til lögreglunnar hafa aldrei verið meiri og verkefnin hafa orðið bæði flóknari og erfiðari. Þrátt fyrir þetta hefur undirmönnun verið viðvarandi árum saman sem leiðir til aukins álags á þá lögreglumenn sem standa vaktina. Aðalfundurinn hvetur samninganefnd ríkisins til að ganga til samninga við Landssamband lögreglumanna án frekari tafa og tryggja þessari mikilvægu stétt þær kjarabætur sem hún á skilið,“ segir meðal annars í ályktun aðalfundarins.

 

Hægt er að lesa skýrslu stjórnar BSRB fyrir aðalfund bandalagsins hér.

Einstakar ályktanir aðalfundarins má finna hér að neðan:


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?