Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fagnar 20 ára afmæli

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, í pallborðsumræðum

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) fagnar 20 ára afmæli í ár. Af því tilefni var boðið til afmælisfundar í samstarfi við Norræna tengslanetiðu um nám fullorðinna, NVL, á Grand Hótel Reykjavík í gær.

Fundurinn var haldinn undir yfirskriftinni Fagbréf atvinnulífsins – Verkfæri til framtíðar og var megininntakið að rýna í Fagbréf atvinnulífsins, sem FA hefur þróað í samstarfi við hagsmunaaðila, og ávinninginn af því ferli sem liggur að baki. Þórhildur Þórhallsdóttir, starfsmannastjóri Sláturfélags Suðurlands og Olga Mörk Valsdóttir, verksmiðjustjóri SS lýst reynslu félagsins af ferlinu.

Gestafyrirlesari var Ingegerd Green, ráðgjafi og sérfræðingur á sviði stefnumótunar og færniþróunar í atvinnulífinu hjá SKTC/Raunfærnimat í sænskum iðnaði. Hún lýsti hvernig aðilar iðnaðarins þar í landi hafa í samstarfi þróað og komið á farsælu raunfærnimatskerfi, færniþróun og færnimarkþjálfun í iðnaði á landsvísu.

Í lok fundar fóru fram umræður í pallborði með fulltrúum samtaka atvinnurekenda og samtaka verkalýðsfélaga þar sem ávinningur og áskoranir voru ræddar. Þátttakendur í pallborði voru Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), Jakob Tryggvason, formaður Félags tæknifólks (FTF), Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), Heiðrún Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Arna Jakobína Björnsdóttir, varaformaður BSRB, Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR og Finnbogi Sveinbjörnsson, fulltrúi Starfsgreinasambandsins (SGS).

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er í eigu ASÍ, SA, BSRB, Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) og fjármála- og efnahagsráðuneytisins (fjr) og er samstarfsvettvangur og verkfærasmiðja eigenda í fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?