Öll í sama bátnum?

Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur

Staða hagkerfisins í kjölfar heimsfaraldurs er mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þannig hefur hagkerfið tekið fyrr við sér, skuldir ríkissjóðs eru lægri og tekjur umtalsvert hærri en búist var við. Það eru því vonbrigði að stjórnvöld ætli ekki að nýta þessa jákvæðu þróun til að styrkja heilbrigðiskerfið, bregðast við vaxandi ójöfnuði og stuðla að aukinni velferð. Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn BSRB um tekjubreytingarfrumvarpið fyrir árið 2023 og Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur hjá BSRB fjallar um í aðsendri grein á Kjarnanum.

Heiður segir illskiljanlegt að frumvarpið boði hækkun gjalda á almenning, sem komi verst niður niður á tekjulægri hópum, í stað þess að grípa til tekjuöflunar hjá fyrirtækjum og fjármagnseigendum. Atvinnulífið naut ríkulegs stuðnings frá stjórnvöldum þegar efnahagslegar afleiðingar Covid fóru að láta á sér kræla en nú þegar nú þegar þrengi að hjá tekjulægri heimilum kveði við annan tón.

Arðgreiðslur meðal stærstu fyrirtækja landsins í sölu nauðsynjavara og fjármálastarfsemi fyrir árið 2021 námu rúmum 38 milljörðum króna og það stefnir í enn meiri hagnað á árinu 2022. Í því ljósi sé erfitt að skilja af hverju ríkisstjórnin leggur til að afla tekna með frekari álögum á almenning í stað fyrirtækja, segir Heiður.

BSRB gerir þá kröfu nú þegar rykið er að setjast í kjölfar heimsfaraldursins að stjórnvöld geri jöfnuð, velsæld og velferð að meginmarkmiðum sínum. Þau markmið má fjármagna með breyttri forgangsröðun við tekjuöflun t.d. með hátekjuskattþrepi, innleiðingu stóreignaskatts, hækkun bankaskatts og fjármagnstekjuskatts og aukinni hlutdeild almennings í tekjum af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar með hærri auðlindagjöldum.

Hér má lesa grein Heiðar í heild sinni

Hér má lesa umsögn BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?