Hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins er ekki töfralausn

Að mati BSRB mun hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins úr 70 árum í 75 ekki leysa mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu. Bandalagið telur mikilvægt að beðið sé eftir niðurstöðum starfshóps sem vinnur að því að greina með heildstæðum hætti þörf á því að lífeyristökualdur tiltekinna starfshópa verði lægri en almennt tíðkast áður en teknar verði stefnumótandi ákvarðanir hvað varðar afnám reglna um starfslokaaldur opinberra starfsmanna.

Þetta kemur fram í umsögn BSRB um áform stjórnvalda um lagasetningu til breytinga á lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, varðandi hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár.

Í umsögninni kemur til að mynda fram að samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda hafi ýmis atriði varðandi lífeyrismál og önnur réttindi ekki verið tekin til skoðunar eins og BSRB telur nauðsynlegt að verði gert. Auk þess sé mikilvægt að tryggja að starfsfólk sé ráðið á sömu eða betri kjörum en það hefur starfað samkvæmt.

Það er mat BSRB að hækkun starfslokaaldurs ríkisstarfsmanna geti verið tímabær og er bandalagið ekki mótfallið hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks en það skipti miklu máli hvernig staðið verður að framkvæmdinni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?