Umsögn BSRB um áform stjórnvalda um lagasetningu til breytinga á lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, varðandi hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár

Heilbrigðisráðuneytið hefur kynnt áform sín um hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna úr 70 árum í 75 ár með formlegum hætti í samráðsgátt stjórnvalda. Markmiðið með breytingunni er að mæta mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu þar sem stór hluti starfsfólks mun ná 70 ára aldri á næstunni. Með breytingunni yrði sett undanþáguákvæði í lög nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn frá þeirri lagaskyldu að segja starfsmanni upp frá og með næstu mánaðarmótum eftir að hann verður 70 ára. Heilbrigðisstofnunum ríkisins verði þannig heimilt að endurráða 70 ára heilbrigðisstarfsfólk allt til 75 ára aldurs.

Á undanförnum árum hafa verið lögð frá á Alþingi mörg lagafrumvörp um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum og hækkun starfslokaaldurs ríkisstarfsmanna. BSRB hefur sent frá sér umsagnir um þau lagafrumvörp og ætíð lýst stuðningi sínum við slíkar breytingar en þó lagt áherslu á að slíkt yrði gert með þeim hætti að um heimild sé að ræða og að litið yrði sérstaklega til lífeyrisréttinda þeirra sem kjósa að starfa fram yfir 70 ára aldur. Í því sambandi hefur BSRB bent á að árið 2016 var skipaður starfshópur sem hefur það hlutverk að greina með heildstæðum hætti þörf á því að lífeyristökualdur tiltekinna starfshópa verði lægri en almennt tíðkast.

Starfshópurinn er enn að störfum þrátt fyrir að hafa átt að skila niðurstöðu árið 2020 og vinnur nú að rannsókn í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Bandalagið telur afar mikilvægt að beðið verði eftir niðurstöðu hópsins áður en teknar verði stefnumótandi ákvarðanir hvað varðar afnám reglna um starfslokaaldur opinberra starfsmanna því samkvæmt þeim upplýsingum sem fengist hafa frá lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna þá er ákveðinn ómöguleiki fyrir hendi þegar kemur að lífeyrisgreiðslum þess hóps. Þannig ná ávinnslutöflurnar ekki lengra en til 70 ára aldurs og ef iðgjöld berast sjóðunum vegna sjóðsfélaga sem er eldri en 70 ára eru þau einfaldlega endursend til launagreiðanda. Þá er einnig rétt að benda á að lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrissréttinda og starfsemi lífeyrissjóða gera eingöngu ráð fyrir því að launafólk og atvinnurekendur þeirra greiði iðgjöld í lífeyrissjóði frá 16 til 70 ára aldurs, sbr. 4. mgr. 1. gr. þeirra laga. Í þeim gögnum sem liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda vegna málsins virðist framangreint ekki hafa verið tekið til greina eða til neinnar skoðunar, sem bandalagið telur nauðsynlegt að verði gert.

Að mati BSRB mun hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins ekki leysa þann vanda sem breytingunum er ætlað að gera. Samkvæmt þeim upplýsingum sem bandalagið hefur þá hefur ekki farið nein könnun meðal þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem nú nálgast starfslokaaldur á því hvort þau hafi hug á að starfa lengur en til 70 ára aldurs. Þau störf sem um ræðir eru mörg hver slítandi störf þar sem mikið mæðir á starfsfólkinu alla daga og undanfarin ár hafa verið gífurlega erfið fyrir þennan sama hóp. Það er því vandséð að hér sé um einhvers konar töfralausn að ræða.

 

Það þarf að huga vel að þeim atriðum sem hafa verið nefnd hér að framan varðandi lífeyrismál og önnur réttindi en einnig þarf að tryggja að starfsfólk sé ráðið á sömu eða betri kjörum en það hefur starfað samkvæmt. Það gengur ekki að starfsfólk sem ákveður að starfa lengur en til 70 ára aldurs sé ráðið í tímavinnu og sé þar með á mun lakari kjörum og með lakari réttindi en það hafði áður en það náði 70 ára aldri.

 

Afar mikilvægt er að breytingar sem þessar séu gerðar á forsendum og út frá sjónarhóli starfsfólksins en ekki atvinnurekenda. Þó það sé mat bandalagsins að hækkun starfslokaaldurs ríkisstarfsmanna geti verið tímabær breyting og BSRB sé ekki mótfallið því að hækka hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár þá skiptir mestu máli hvernig slík breyting yrði framkvæmd.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?