Höfum efni á að reka gott heilbrigðiskerfi

„Við látum ekki lasið fólk og veikt liggja á víðavangi. Við sinnum því,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á opnum fundi BSRB.

Við búum í ríku samfélagi og höfum efni á að reka gott heilbrigðiskerfi, sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á opnum fundi BSRB á mánudag. Hann sagði Íslendinga vel geta sett sambærilegt hlutfall af landsframleiðslu í heilbrigðismál og þjóðirnar í kringum okkur.

„Á endanum er þetta alltaf spurning um það hvernig samfélagi við viljum búa í,“ sagði Kári á fundinum. Hann hefur barist fyrir því að framlög til heilbrigðismála verði stóraukin hér á landi. Um 87 þúsund skrifuðu undir áskorun til stjórnvalda þar sem farið var fram á að þau verji 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál en ekki 8,7% eins og þá var.

Kári sagði ljóst í sínum huga að byggja verði upp opinbera heilbrigðiskerfið með Landspítalann í forgrunni. Hann sagðist algerlega mótfallinn því kerfi einkarekstrar í heilbrigðisþjónustunni sem komið hafi verið á laggirnar á undanförnum árum og áratugum.

„Heilbrigðisþjónustan er allt öðruvísi en önnur þjónusta og neytandinn á erfitt með að meta hana sjálfur,“ sagði Kári. Hann benti á að það geti verið erfitt fyrir sjúkling sem sé með alvarlegan sjúkdóm að meta þjónustu mismunandi aðila og taka ákvörðun um framhaldið.

Þessi hugmynd um framboð og eftirspurn sem á að stjórna því hvernig við kaupum okkur tyggjó og fleira virkar ekki þegar kemur að heilbrigðisþjónustunni. Heilbrigðisþjónustan á rætur sínar í grundvallarhugmyndum okkar um mannréttindi og hvernig við umgöngumst hvert annað. Við látum ekki lasið fólk og veikt liggja á víðavangi. Við sinnum því. Það er grundvallaratriði.
– Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar

Hann sagði ekkert til í því að það þurfi að kalla til einkafyrirtæki til að vinna á biðlistum. Allt sé þetta spurning um peninga, Landspítalinn geti vel unnið niður biðlistana fái hann til þess það fé sem þurfi til. „Allt tal um að það þurfi að opna einkarekna klíník upp í Ármúla til að vinna niður biðlista, þeir eru bara til komnir vegna þess að við sem samfélag höfum ákveðið að setja ekki fé til Landspítalans að því marki að hann geti sinnt aðgerðum,“ sagði Kári.

„Þetta er ekki flókið, þetta er mjög einfalt mál. Það er verið að búa til þörf úti í bæ. Ég veit ekki hvort menn eru að gera það viljandi, kannski er það óviljandi, en að minnsta kosti er það þannig að með því að fjármagna ekki Landspítalann að því marki sem hann þarf á að halda er búin til þörf úti í bæ,“ sagði Kári.

Lestu meira um baráttu BSRB gegn einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?