Jafnréttið þarf líka að ná til heimilanna

Gary Baker, forseti Promundo, var einn fyrirlesara á ráðstefnu um jafnréttismál.

Það nægir ekki að vinna að jafnrétti á vinnumarkaði, karlar verða að taka aukinn þátt í heimilisstörfum og umönnun barna sinna til að jafnrétti kynjanna verði að veruleika. Þetta var meðal þess sem rætt var á ráðstefnu um jafnréttismál sem fram fór í Kaupmannahöfn nýlega.

Á ráðstefnunni var fjallað um jafnréttismál út frá sjónarhorni beggja kynja og áhersla lögð á að fá fram sjónarmið karla um hvernig hægt sé að vinna að því að jafna hlut kynjanna á vinnumarkaði og í samfélaginu í heild. Ráðstefnan var haldin með svokölluðu rakarastofusniði (e. barbershop) sem ætlað er að hvetja karla til að taka þátt í umræðu um jafnrétti kynjanna.

„Vandinn er að karlar taka ekki nægileg mikinn þátt í heimilisstörfum,“ sagði Gary Barker, forseti Promundo og einn fyrirlesara á ráðstefnunni. Hann benti á að þrátt fyrir að hagstofur víða um heim safni urmull gagna um vinnuframlag og vinnuþátttöku sé sjaldnast safnað upplýsingum um ólaunað vinnuframlag fólks á heimilum. Það að lítil áhersla sé á að mæla þessa vinnu af opinberum aðilum þýði að það eru ekki sett markmið um breytingar.

Það þarf ekki miklar rannsóknir til að staðfesta það sem flestir átta sig á, almennt vinna konur mun meira af þessum ólaunuðu störfum á heimilinu. Það á við um umönnun og uppeldi barna, þrif og þvotta, eldamennsku og öll hin störfin sem þarf að vinna á hverju heimili.

„Karlmenn verða að vinna sinn hluta af þessari vinnu,“ sagði Gary. Hann benti á að meira að segja á Norðurlöndunum, þar sem jafnrétti væri sem mest, sýndu rannsóknir að karlar sinni aðeins 40 prósentum af þessari ólaunuðu vinnu á móti 60 prósentum sem konurnar sinni. Annarsstaðar séu hlutföllin mun verri.

Í nýlegum tölum Hagstofu Íslands má sjá að íslenskir karlar vinna almennt lengri vinnudag en konur. Þeir eru frekar í fullu starfi en konur og þeir karlar sem eru í fullu starfi vinna fleiri klukkustundir en konur í fullu starfi. En þessar tölur segja ekki alla söguna. „Staðreyndin er sú að þegar við leggjum saman vinnutíma á vinnumarkaði og ólaunuðu vinnuna á heimilunum vinna konur lengri vinnudag en karlar í öllum heimshlutum,“ sagði Gary.

Beinir hagsmunir karla

Hluti af þessari ólaunuðu vinnu tengist umönnun og uppeldi barna. Þar hafa karlar beina hagsmuni af því að taka þátt. „Mikið af gögnum sem við höfum, sérstaklega frá Norðurlöndunum, sýna að feður sem mynda sterk tengsl við börnin sín lifa lengur, eru hamingjusamari, ólíklegri til að verða handteknir, ólíklegri til að beita ofbeldi og ólíklegri til að nota eiturlyf. Líf okkar karlmannanna er betra ef við tengjumst börnum okkar vel,“ sagði Gary.

Ein af niðurstöðum hans var að fæðingarorlof sé gríðarlega mikilvægt tæki til að ná jafnrétti bæði á vinnumarkaði og heimilum. Til þess að fæðingarorlofið nái þeim markmiðum verði bæði kynin að fá fæðingarorlof, það verði að vera jafn langt fyrir bæði feður og mæður, og það verði að vera skýrt að ekki sé hægt að færa orlofið á milli foreldra.

Hægt er að horfa á öll erindin á ráðstefnunni, sem haldin var á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og UN Women, á YouTube-rás íslenska utanríkisráðuneytisins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?