Kynbundinn launamunur eykst hjá hinu opinbera

Konur gengu út af vinnustöðum á þessum degi í fyrra til að mótmæla kynbundnum launamun.

Óleiðréttur kynbundinn launamunur hjá opinberum starfsmönnum sem vinna hjá ríkinu hefur aukist um 1,4 prósentustig milli ára samkvæmt nýrri mælingu Hagstofu Íslands. Launamunurinn mældist 16,3% hjá þessum hópi árið 2016 en 14,9% árið 2015.

Á sama tíma eykst óleiðréttur kynbundinn launamunur hjá opinberum starfsmönnum sem vinna hjá ríkinu úr 7,2 prósentum í 8,3 prósent, eða um 1,1 prósentustig.

Þegar vinnumarkaðurinn í heild sinni er skoðaður má sjá að heldur dregur úr kynbundnum launamun. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar var hann 17 prósent árið 2015 en 16,1 prósent árið 2016 og minnkar því um 0,9 prósentustig milli ára. Í öllum tilvikum var reiknað út frá tímakaupi karla og kvenna, að teknu tilliti til grunnlauna, fastra greiðslna og yfirvinnu.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir þessa þróun grafalvarlega. „Við vitum að megin ástæðan fyrir kynbundnum launamuni er hversu kynskiptur vinnumarkaðurinn við þurfum að ganga í að útrýma muninum á virði starfanna sjálfra,“ sagði Elín Björg í viðtali við Bylgjuna í hádeginu í dag.

„Við getum ekki haft það þannig að karlastéttir séu verðmetnar hærra en hefðbundnar kvennastéttir. Þess vegna þurfum við að jafna aðstöðu kvenna og karla til að sinna sambærilegum störfum og fá þau metin til launa,“ sagði Elín Björg.

Áhrif kynskipts vinnumarkaðar augljós

Störf í heilbrigðis- og félagsþjónustuTölur Hagstofunnar sýna svart á hvítu áhrif kynskipts vinnumarkaðar. Þannig var bæði meðaltal og miðgildi launakvenna lægra en karla í öllum starfsstéttum og bilið milli efstu og neðstu tíundar var breiðara hjá körlum en konum.

Dæmi um kynskiptinguna má sjá þegar litið er til þeirra sem starfa innan heilbrigðis- og félagsþjónustu. Á meðfylgjandi mynd má sjá hlutfall starfsmanna í ákveðnum störfum innan þessa geira eftir kynjum.

Launajafnrétti eftir 35 ár?

Það er viðeigandi að Hagstofa Íslands birti mælingu sína í dag, 24. október, en þennan dag árið 1975 gengu íslenskar konur út af vinnustöðum um allt land til að mótmæla muni á kjörum á kjörum kvenna og karla undir yfirskriftinni Kvennafrí. Konur gengu einnig út þennan dag árið 1985, 2005, 2010 og 2016.

Í tölum Hagstofunnar eru taldar til meðalatvinnutekjur kvenna. Árið 2016 voru konur að meðaltali með 72,5 prósent af atvinnutekjum karla og voru því með 27,5% lægri tekjur af sinni atvinnu að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 48 mínútur miðað við fullan átta stunda vinnudag.

Ef þessar tölur eru útfærðar á árið má segja að konur hafi verið búnar að vinna sér inn fyrir launum sínum á slaginu klukkan 14:48 í dag, 24. október. Árið 2005 gengu konur út klukkan 14:08 og hefur því þokast hægt í rétta átt á þeim 12 árum sem liðin eru síðan. Með sama áframhaldi má búast við að konur þurfa að bíða í 35 ár til viðbótar eftir jöfnum launum á við karla, sem augljóslega er með öllu óásættanlegt.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?