Trúnaðarmenn auka jákvæðni og skilning

Trúnaðarmannaráðstefna BSRB og aðildarfélaga bandalagsins var afar vel sótt.

Starf trúnaðarmanna á vinnustöðum getur verið mikilvægur hlekkur í að auka jákvæðni og skilning á réttindum og skyldum starfsmanna og því mikilvægt að yfirmenn skilji hlutverk þeirra. Þetta var meðal þess sem fram kom á ráðstefnu BSRB fyrir um 150 trúnaðarmenn aðildarfélaga bandalagsins sem haldin var nýverið.

Í erindum framsögumanna kom fram að ekki aðeins er starf trúnaðarmanna til þess fallið að auka skilning samstarfsmanna á réttindum þeirra og skyldum heldur skapar starfið einnig tækifæri til að bæta andrúmsloft og auka vellíðan starfsmanna, sem kemur öllum vinnustaðnum til góða.

Á ráðstefnunni, sem haldin var 6. október síðastliðinn, var ætlunin að svara þeirri spurningu hvert sé hlutverk trúnaðarmanna og hvernig sé hægt að bæta trúnaðarmannakerfið.

Fyrirkomulag fundarins var þannig að fyrir hádegi komu góðir gestir með fræðandi erindi um málefni trúnaðarmanna. Þar fluttu eftirfarandi erindi:

  • Dalla Ólafsdóttir, lögfræðingur BSRB, fjallaði um formlega stöðu trúnaðarmanna (sjá glærur hér).
  • Guðmundur Freyr Sveinsson, sérfræðingur hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, kynnti trúnaðarmannakönnun BSRB 2017 (sjá glærur hér).
  • Jóhanna Þórdórsdóttir, fræðslustjóri SFR, for yfir möguleika trúnaðarmanna til að afla sér fræðslu (sjá glærur hér).
  • Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur og Lilja Bjarnadóttir sáttamiðlari fjölluðu um samskipti fólks á vinnustöðum (sjá glærur hér).
  • Sigríður Harðardóttir, mannauðsstjóri Strætó, ræddi um upplifun vinnuveitenda af trúnaðarmannakerfinu (sjá glærur hér).

Eftir hádegi var þátttakendum skipt í minni hópa og rætt um starf trúnaðarmannsins út frá ýmsum vinklum. Þar komu fram margar og áhugaverðar hugmyndir sem unnið verður úr á næstu dögum og niðurstaðan kynnt félagsmönnum í kjölfarið.

Almenn ánægja var með ráðstefnuna og fyrirkomulag hennar og höfðu margir orð á því að hún væri gagnleg og stefna ætti að því að halda slíkar ráðstefnur oftar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?