Kallar eftir samfélagslegri ábyrgð stjórnenda

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, opnaði 45. þing bandalagsins í morgun.

„Það verður aldrei sátt í okkar samfélagi á meðan bætt kjör og betri lífsgæði eiga bara við um suma en ekki alla,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í opnunarávarpi sínu á 45. þingi BSRB á Hilton hótel Nordica í morgun.

Þar kallaði Elín Björg eftir samfélagslegri ábyrgð stjórnenda í atvinnulífinu. „Við sjáum svo nú að stjórnendur margra stórra fyrirtækja virðast ekkert hafa lært af hruninu, annað en kannski að senda ekki viðkvæmar upplýsingar í tölvupósti,“ sagði hún.

Stjórnendur fyrirtækja virðist enn halda að það sé ásættanlegt að greiða stjórnendum laun langt umfram veruleika venjulegs launafólks og að auki háa bónusa fyrir það eitt að sinna sínum störfum. Þá hafi stjórnvöld fylgt í kjölfarið með gríðarlegum launahækkunum til æðstu stjórnenda. 

Í ávarpi sínu kallaði hún eftir samstöðu launafólks og opnu og hreinskilnu samtali við viðsemjendur, stjórnvöld og sveitastjórnir um allt land. „Við megum ekki falla í þá gryfju að hugsa um viðsemjendur okkar sem óvini. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að búa til betra samfélag, þó áherslurnar og leiðirnar sem við viljum fara geti verið býsna ólíkar,“ sagði Elín Björg.

„Þar skiptir máli að við getum staðið saman til að þrýsta á um þær breytingar sem við teljum að muni bæta samfélagið og vinna að sameiginlegum skilningi allra aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Við þurfum að bera gæfu til þess að nýta þann mikla samtakamátt sem býr í íslensku launafólki til að bæta samfélagið allt,“ sagði hún.

Stuðlum að jöfnuði og réttlæti

Hún sagði allar forsendur til þess að byggja upp gott samfélag. Landið sé ríkt af auðlindum en erfiðlega hafi gengið að skipta gæðunum með sanngjörnum hætti. Þeir sem lægst hafi launin nái ekki endum saman á meðan þeir sem best hafi það séu með mánaðarlaun á við árslaun almenns launfólks.

„Stefna BSRB, mörkuð á þingum undanfarin ár og áratugi, er sú að stuðla að jöfnuði og réttlæti í samfélaginu. Við viljum styrkja almannaþjónustuna, við viljum þétta öryggisnetið og tryggja að allir eigi þar jafnan rétt, óháð efnahag. Við viljum gera fólki kleift að koma þaki yfir höfuðið og búa við húsnæðisöryggi. Við viljum tryggja jafnrétti, eyða kynbundnum launamun og standa við bakið á barnafjölskyldum. Velferðarsamfélagið byggir á gildum samtryggingar og jafnaðar. Það eru gildin sem hafa fylgt BSRB í gegnum tíðina,“ sagði Elín Björg í opnunarávarpi sínu.

Hægt er að lesa ræðu Elínar Bjargar í hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?