Metfjöldi umsókna hjá VIRK á síðasta ári

Aukin ásókn í þjónustuna er áhyggjuefni segir Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK.

Alls sóttu 1.961 einstaklingar um starfsendurhæfingu hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði á síðasta ári og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Þá luku 1.367 starfsendurhæfingu hjá VIRK á árinu, sem einnig er metfjöldi.

VIRK starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður af aðilum vinnumarkaðarins árið 2009 til að bregðast við þeim þrengingum sem samfélagið gekk í gegnum í kjölfar bankahrunsins. Markmiðið var að auka framboð af sérhæfðri starfsendurhæfingu.

Aukin ásókn í þjónustuna er áhyggjuefni, segir Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, í samtali við RÚV. „Við höfum áhyggjur af þessari aukningu. Þetta hefur haldið áfram núna og við áttum ekki von á því. Það sem við höfum mestar áhyggjur af er aukinn fjöldi ungs fólks sem leitar til okkar. En svo getur verið önnur skýring. Hún er sú að fólk er orðið meira meðvitað um okkar þjónustu og fagaðilar vísa til okkar í meira mæli en áður,“ segir Vigdís.

Á árunum 2010 til 2017 leituðu alls 12.197 til VIRK, þar af 1.600 félagar í aðildarfélögum BSRB, eða um 13 prósent. Þetta kemur fram í samantekt sem VIRK vann fyrir bandalagið. Af þeim félögum BSRB sem leituðu til VIRK voru 83 prósent konur og 17 prósent karlar. Hafa verður í huga að tveir af hverjum þremur félagsmönnum í aðildarfélögum bandalagsins eru konur.

Í samantektinni kemur fram að níu af hverjum tíu félögum í aðildarfélögum BSRB sem leituðu til VIRK á árunum 2010 til 2017 glímdu við annað hvort stoðkerfisvanda eða geðræn vandamál. Þannig sögðust alls um 46 prósent þeirra sem leituðu til VIRK á þessu árabili að ástæður fjarvista frá vinnu við upphaf þjónustu væri stoðkerfisvandi en 44 prósent nefndu geðræn vandamál.

Aðrar ástæður voru ekki jafn algengar, en í sumum tilvikum nefndu þau sem leituðu til VIRK fleiri en eina ástæðu. Þannig nefndu um 5 prósent efnaskiptasjúkdóma, sama hlutfall nefndi taugasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma og smitsjúkdóma. Færri nefndu hjarta- og æðasjúkdóma, æxli, meltingarfærasjúkdóma eða aðrar ástæður.

Ungu fólki fjölgar verulega

Athygli vekur að á síðustu árum hefur hlutfall ungs fólks sem leitað hefur til VIRK aukist verulega. Árið 2010 voru um 17 prósent félagsmanna BSRB sem leituðu til virk 34 ára eða yngri en hlutfallið hafði nærri tvöfaldast og var komið í 33 prósent árið 2017. Hlutfallsleg aukning varð einnig hjá fólki á aldrinum 35 til 44 ára, úr 15 prósentum árið 2010 í 24 prósent árið 2017. Á móti lækkaði hlutfall 45 ára og eldri úr 68 prósent í 44 prósent á sama tímabili.

Í samantektinni sem unnin var fyrir BSRB kemur fram að við lok þjónustu var nær helmingur þeirra sem leituðu til VIRK komin í launuð störf á vinnumarkaði, reiknað í stöðugildum. Þá voru 5 prósent í atvinnuleit, 10 prósent á endurhæfingarlífeyri og 22 prósent á örorkulífeyri.

Hægt er að fræðast meira um VIRK starfsendurhæfingarsjóð á vef VIRK.

Hægt er að nálgast samantekt VIRK um BSRB hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?