Öll helstu áherslumálin í nýrri stefnu BSRB

Stefna BSRB var uppfærð á 45. þingi bandalagsins og hefur nú verið gefin út.

Almannaþjónustan sem félagar aðildarfélaga BSRB sinna gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu samfélagsins, tryggir aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntun og öryggi. Fjallað er um áherslur BSRB um almannaþjónustuna og fjölda annarra málaflokka í stefnu bandalagsins sem nú er komin á netið eftir breytingar sem gerðar voru á 45. þingi bandalagsins.

Stefna bandalagsins er mótuð á þingum sem haldin eru þriðja hvert ár og er leiðarvísirinn í starfsemi bandalagsins á milli þinga. Stefnan var endurskoðuð og uppfærð á 45. þingi BSRB dagana 17. til 19. október 2018.

Í stefnunni er meðal annars kallað eftir því að stjórnvöld verði að gera það að forgangsverkefni að lækka húsnæðiskostnað og tryggja nægilegt framboð á húsnæði. Þá verði að auka stofnframlög til félaga sem hafa það að langtímamarkmiði að byggja, eiga og hafa umsjón með leiguhúsnæði og eru rekin án hagnaðarsjónarmiða.

BSRB leggur áherslu á að skattkerfið sé nýtt sem jöfnunartæki. Í stefnunni er kallað eftir samstöðu um að bæði skattkerfið og velferðarkerfið séu rekin með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum. Þannig ættu þeir sem betur eru stæðir að bera meiri byrðar en hinir sem eru verr staddir.

Bandalagið leggur mikla áherslu á að byggja upp fjölskylduvænt samfélag, meðal annars með samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Eyða verður kynbundnum launamuni og jafna möguleika foreldra til að sinna umönnun barna sinna og verja tíma með fjölskyldunni. Til þess þarf að lengja fæðingarorlof, hækka hámarksgreiðslur og tryggja rétt einstæðra foreldra til fulls fæðingarorlofs.

Í stefnunni er einnig mikil áhersla á styttingu vinnuvikunnar, enda mikilvægur liður í því að búa til fjölskylduvænna samfélag. BSRB vill lögfesta 35 stunda vinnuviku án launaskerðingar og tryggja að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80 prósent af vinnutíma dagvinnufólks.

Fjallað um fjórtán málaflokka

Í stefnunni er fjallað um alls fjórtán málaflokka: Almannatryggingar, almannaþjónustu, almannaöryggi, atvinnumál, efnahags- og skattamál, heilbrigðismál, húsnæðismál, jafnréttismál, kjaramál, lífeyrismál, menntamál, starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu, umhverfismál og velferðarmál.

BSRB hvetur félaga í aðildarfélögum bandalagsins og aðra áhugasama til að skoða nýja stefnu BSRB. Hægt er að fletta í einstökum köflum stefnunnar, eða hlaða niður pdf-skjali með stefnunni í heild sinni.

Stefna BSRB 2018-2021

 Smelltu á myndina til að hlaða niður stefnunni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?