Skorið niður vegna einkarekinna stöðva

Fækka verður starfsmönnum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eftir tilkomu tveggja nýrra einkarekinna heilsugæslustöðva.

Skera þarf niður í rekstri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um að minnsta kosti 200 milljónir króna vegna tilkomu tveggja einkarekinna heilsugæslustöðva sem opnaðar voru á höfuðborgarsvæðinu nýlega.

Um 6.500 íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa skráð sig á einkareknu stöðvarnar tvær frá því þær opnuðu, að því er fram kemur í umfjöllun Fréttablaðsins í dag. Þar sem fjármögnun heilsugæslunnar gengur út á að fé fylgi sjúklingi þýðir það að tekjur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa þegar verið skertar um tæplega 200 milljónir króna.

Í samtali við Fréttablaðið í dag segja forsvarsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að þetta muni hafa mikil áhrif á reksturinn og fækka verði starfsfólki. Einhverjir þeirra lækna sem nú starfa hjá einkareknu störfunum störfuðu áður hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og því hefur læknum fækkað að undanförnu.

Skorið niður hjá fjársveltri stofnun

Skýrari verða dæmin varla um áhrif einkareksturs á opinbera heilbrigðiskerfið. Skorið er niður hjá stofnun sem hefur verið haldið lengi í fjársvelti í stað þess að byggja hana upp. BSRB mótmælti frá upphafi áformum um fjölgun einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og lagði þess í stað áherslu á uppbyggingu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Með aukinni áherslu á að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefði átt að byggja verulega upp starfsemi þessarar mikilvægu þjónustustofnunar. Í staðinn þarf nú að skera niður í rekstrinum. Í stað þess að fjölga starfsfólki til að stytta biðtíma og bæta þjónustu þarf að fækka starfsmönnum.

Laða einkareknu stöðvarnar lækna heim?

Þá er einnig áhugavert sem fram kemur í frétt Fréttablaðsins að hluti þeirra lækna sem nú vinni hjá einkareknu heilsugæslustöðvunum hafi áður unnið hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það voru jú ein af rökum þeirra lækna sem höfðu áhuga á að stofna einkareknar stöðvar að þær myndu verða til þess að fjöldi íslenskra heimilislækna sem hefðu ílengst erlendis eftir nám myndu snúa aftur heim til að vinna á einkareknu stöðvunum.

Þegar litið er yfir starfsferil þeirra níu lækna sem starfa á einkareknu heilsugæslustöðinni Höfða má sjá að átta þeirra voru áður starfandi hjá heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Sá níundi starfaði í Svíþjóð en starfaði einnig hér á landi í afleysingum. Allt tal um að læknar myndu flytja heim til að starfa á einkareknu stöðvunum reyndist fyrirsláttur.

Gengið gegn þjóðarvilja

Með þessum breytingum eru stjórnvöld að ganga þvert gegn þjóðarvilja. Rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, sem gerð var síðastliðið vor sýndi að 78,7% landsmanna vilja að heilsugæslustöðvar séu fyrst og fremst reknar af hinu opinbera. Aðeins 2,2% treystu einkaaðilum betur til rekstursins en hinu opinbera. Hér má lesa nánar um rannsókn Rúnars.

Stefna BSRB er einföld. Bandalagið vill að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera á réttlátan hátt fyrir skattfé landsmanna og hefur barist gegn sífellt auknum þrýstingi hagsmunaaðila um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hér má lesa nánar um baráttuna um heilbrigðiskerfið sem nú stendur yfir.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?