Konur búa enn við launamisrétti 60 árum eftir að launajafnrétti var leitt í lög. Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er ein helsta skýringin á kynbundnum launamun. Síðustu ár hefur ýmislegt áunnist í vinnu gegn kynbundnum launamun en áherslan hefur verið á að leiðrétta launamun innan vinnustaða, til dæmis með jafnlaunastaðlinum. Þó það sé góðra gjalda vert er jafnlaunastaðallinn ekki verkfæri sem tekur á því grundvallar misrétti sem viðgengst í samfélaginu, hann leiðréttir ekki skakkt verðmætamat kvennastétta þvert á atvinnugreinar og vinnustaði. Því verður að beina kastljósinu að því að leiðrétta laun kvennastétta út frá raunverulegu verðmæti þeirra og þeirri verðmætasköpun sem störfin skila.

Skýrsla starfshóps um endurmat kvennastarfa
Forsætisráðherra skipaði starfshóp um endurmat kvennastarfa í 2020. Hópurinn var skipaður í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga milli ríkis og sveitarfélaga og aðildarfélaga BSRB 9. mars 2020. Verkefni hópsins var að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og áttu þær að hafa að leiðarljósi að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta.
Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.
Starfshópurinn skilaði skýrslu með tillögum til aðgerða í september 2021. Hægt er að nálgast skýrsluna með því að smella á myndina.
Hér má lesa umsagnir um tillögurnar.